135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd til handa fórnarlömbum mansals.

69. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er um framhaldsræðu að ræða. Ég spyr hæstv. ráðherra um hitt málið sem vísað var til ríkisstjórnarinnar að tillögu allsherjarnefndar síðasta vor í tengslum við vinnuna með almennu hegningarlögin. Nú er ég að spyrja um það hvað líði skoðun ráðuneytisins á aðgerðum til að vernda fórnarlömb mansals og vísa í frumvarp sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum oftar en einu sinni lagt fram á Alþingi Íslendinga og köllum frumvarp til laga um fórnarlambavernd. Það varðar breytingu á almennum hegningarlögum, breytingu á lögum um útlendinga og breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og endurspeglar í raun og veru ákvæði í alþjóðasamningum sem við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir. Þá er ég í fyrsta lagi að tala um Palermo-samninginn svonefnda frá því í desember árið 2000 en ekki síður um samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Það vill einmitt svo til að okkur þingmönnum hafa borist áskoranir frá Íslandsdeild Amnesty International um að það sé orðið tímabært að við Íslendingar fullgildum þann samning sem varðar ekki hvað síst vernd fórnarlamba þeirra glæpamanna sem stunda mansal.

Nú er það svo að einungis tíu ríki þurfa að fullgilda þennan samning, Evrópusamninginn, til að hann gangi í gildi sem fullgild tilskipun og í sjálfu sér til að hann nái áhrifamætti. Það væri afar eftirbreytnivert að mínu mati og til fyrirmyndar ef Íslendingar gætu verið 10. ríkið. Nú eru níu ríki búin að fullgilda samninginn. Við gætum orðið 10. ríkið sem gerði það þá að verkum að samningurinn gengi í gildi. Enn hafa einungis fullgilt hann þau Evrópuríki sem má segja að séu upprunalönd mansals: Albanía, Búlgaría, Króatía, Georgía, Moldóva, Rúmenía og Slóvakía auk tveggja landa sem ekki eru upprunalönd, Austurríkis og Danmerkur.

Eitt land í viðbót til að fullgilda samninginn sem kveður á um ábyrgð landa til handa fórnarlömbum mansals og þá erum við að tala um ábyrgð á því að fórnarlömbin fái einhvern stuðning, einhverja hjálp til að koma sér aftur út í lífið, byrja að lifa því á nýjan leik. Við erum að ræða um að úrræðin séu með þeim hætti að fólk fái þá stuðning, lögfræðistuðning, stuðning við atvinnuleit, húsnæði, aðra félagslega aðstoð, til að tryggja að það sé litið á tengslin milli fórnarlambsins og þeirra sem hafa selt viðkomandi á milli landa, (Forseti hringir.) oftar en ekki í kynlífsþrælkun.