135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:58]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur að mörgu leyti verið ánægjulegt að hlýða á hv. framsóknarmenn í þessari umræðu koma hér upp og í reynd viðurkenna að sú vinna sem hefði þurft að vinna á sínum tíma fór ekki fram. Það er alveg kórrétt. Sá vandi sem Alþingi stendur frammi fyrir núna er að sú sala sem fór fram og sú þróun sem hefur orðið í kjölfarið gerir það að verkum að nú þarf Alþingi að bregðast við, bregðast við ástandi sem er orðið í stað þess sem hefði átt að vera, að Alþingi hefði brugðist við áður en þessi hlutur var seldur. Þetta eru staðreyndir málsins, þetta er sú staða sem við stöndum frammi fyrir.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem hóf þessa umræðu, spurði einmitt hver væri afstaða Samfylkingarinnar í þessu máli. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert ágæta grein fyrir því en afstaða okkar er afar skýr. Hún er sú að í dag eru svo til allar auðlindir í eigu almennings eða sveitarfélaga eða ríkisins og þar viljum við tryggja að þessar auðlindir verði áfram. Það er alveg skýrt. Á sama hátt er það alveg skýrt að við viljum tryggja að dreifing og flutningur á orkunni verði áfram í félagslegri eigu. Hins vegar er ljóst að framleiðslan á orkunni getur farið yfir á samkeppnismarkað. Fyrir þessu höfum við talað lengi og staðreyndin er sú að þessi uppákoma, auðvitað er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en uppákomu, sem orðin er er þess eðlis að Alþingi þarf að bregðast við ef ekki á að verða hér einhvers konar allsherjarstríð um orkulindir og annað í þessu samfélagi, vatn, hita og rafmagn. Að þessu þarf Alþingi sameiginlega að vinna. Það er alveg ljóst að við þurfum að hreinsa til og (Forseti hringir.) leysa úr þeim vanda sem fortíðin hefur skapað.