135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:55]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að fagna ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Ég held hann sé farinn að átta sig á því að fleiri en eina stofnun þarf í rannsóknir. En einu gleymir hann og það eru grunnrannsóknirnar. Þær byggjast allar á svokölluðu togararalli og þegar grunnurinn er vitlaus verður allt annað vitlaust. Það er fullt af mönnum sem hafa þekkingu og reynslu hvað varðar fiskifræði á Íslandi og má þar nefna sjómennina sjálfa, þ.e. skipstjórnarmennina, ég tek það fram. Ekki er hægt að leggja vélstjóra og háseta, með fullri virðingu fyrir þeim, að jöfnu við skipstjórnarmenn, þar er verulegur munur á. Þeir hafa mikla reynslu.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur verið notaður sem ráðgjafi víða en við höfum ekki hlustað á hann hér á Íslandi. Auðvitað er ekki allt 100% rétt sem hann segir en hann hefur skoðanir og hefur kynnt kenningar sínar og hefur margt til síns máls, sérstaklega þar sem um staðbundna stofna er að ræða.

Fjármagn í rannsóknir er allt of lítið og sérstaklega í háskólastofnanir. Við höfum líka Veiðimálastofnun sem við gætum notað og fengið álit hjá og svo sjálfstæða háskóla, ekki tengda öðrum eins og þetta er allt í dag hjá okkur. Við höfum sjávarsetur eða rannsóknarsetur í Breiðafirði, í Ólafsvík, það er tengt Hafrannsóknastofnun. Við erum með ýmsar stofnanir, fræðasetur o.s.frv. Þar kemur Hafrannsóknastofnun að. Það þarf að aðskilja þetta, slíta þetta í sundur. (Forseti hringir.) Það er að mínu mati mergur málsins.