135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Björn Valur Gíslason skuli taka þetta mál hér upp. Nú er einn stærsti togari landsins að þræða firði á Vestfjörðum í tilraunaskyni sem kallað er. Ég spyr: Væri ekki hægt að gera þessar tilraunir fyrir utan 12 mílurnar þar sem viðkomandi togari má þá hugsanlega fara um, heldur en að fara þarna inn á grunnsævið? Erum við kannski að upplifa það nú að þessar umdeildu tillögur sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á þorskheimildum eiga nú að snúast í andhverfu sína? Það var niðurskurður til að vernda þorskinn, vernda fiskinn í hafinu, en er það kannski að snúast í andhverfu sína þannig að þessum aðgerðum verði beitt til að stór togskip fari inn á grunnslóð og skrapi hana?

Við höfum hér ályktanir frá sveitarfélögunum við Húnaflóa, Skagafjörð og víðar um landið þar sem varað er við því að stór og aflmikil togskip eru farin að fara inn um allt landgrunn. Einn sagði mér í morgun að hann hefði haldið að það væri einhver á laxveiðum í ósnum í Miðfjarðará. Ég beini því til hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að hæstv. sjávarútvegsráðherra endurskoði nú strax framkvæmd sína á því sem hann kallar fiskveiðiráðgjöf og fiskvernd ef þetta á að snúast í þá andhverfu sína að togararnir skrapi ströndina? Það átti að vera í einn eða tvo daga. Mér skilst að togarinn í Ísafjarðardjúpi eigi að vera í viku og á meðan verða aðrir bátar að halda sig í landi. Hvernig skilur hann við eftir þá slóð? Þetta er alvörumál, herra forseti.