135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur um björgunarmál og almannavarnir.

105. mál
[14:38]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ef slíkt atvik gerðist yrði það ekki einn ráðherra sem tæki ákvarðanir. Það yrðu væntanlega þrír ráðherrar sem kæmu að málinu, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra. Þá yrðu teknar ákvarðanir sem væru svo víðtækar að það væri ekki á hendi eins ráðherra að taka þær. En hver bæri ábyrgð á sínu sviði og dómsmálaráðherra bæri ábyrgð á því að hér væru þá tæki og viðbragðsáætlanir með þeim stofnunum sem við réðum yfir til þess að bregðast við og bregðast við í fyrstu atrennu. Það er alveg ljóst að það sem við erum að gera og þær áætlanir sem við höfum gert um uppbyggingu Landhelgisgæslunnar miða að því að við höfum þennan mátt á fyrsta stigi.

Það færi náttúrlega eftir aðstæðum hverjir kæmu til aðstoðar og hvernig tekið yrði á málum. Ef hv. þingmaður kynnti sér umræður um þessa hluti, það sem hefur verið skrifað um slíka atburði og það sem gæti gerst ef eitthvað slíkt kæmi fyrir, t.d. á risaskemmtiferðarskipi með fjögur til fimm þúsund manns, yrði ljóst að það yrði eitthvert hryllilegasta slys sem menn gætu staðið frammi fyrir, og kannski í svo stórum stíl að enginn gæti ráðið við það.

Menn mundu gera það sem í þeirra valdi stæði til að bjarga því sem bjargað yrði en slysið yrði af slíkri stærðargráðu að það er eiginlega óhugsandi að menn gætu gert áætlanir um það hvernig taka ætti á því. Allir yrðu að koma að því, margar þjóðir. Þegar litið er til olíuslysa, og þar höfum við reynslu bæði við strendur Bandaríkjanna og einnig við strendur Evrópu, ræður engin ein þjóð við það. Það eru fyrst og fremst borgaralegir aðilar sem hafa yfir þeim tækjum að ráða, dráttarbátum og öðrum slíkum tækjum, sem síðan heraflinn mundi nýta. En það eru björgunaraðilar, borgaralegir aðilar, sem stýra öllum slíkum aðgerðum.