135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

endurgreiðsla virðisaukaskatts.

112. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur Ingvarsson) (S):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort hann hafi í hyggju að gera skattalagabreytingar á þann hátt að heilbrigðisstofnanir eða önnur opinber fyrirtæki sem ekki stunda starfsemi sem greiða þarf af virðisaukaskatt geti fengið virðisaukaskatt endurgreiddan af allri aðkeyptri þjónustu.

Nú eru aðstæður þessara aðila, og þar með heilbrigðisstofnana, á þann veg að þeir fá ekki endurgreiðslu af virðisaukaskatti af aðkeyptri þjónustu nema í undantekningartilvikum. Því er núverandi fyrirkomulag hamlandi og kemur í veg fyrir útboð eða úthýsingu þjónustu, svo sem tölvukerfa eða þvottahúsa heilbrigðisstofnana. Það fyrirkomulag hamlar einkarekstri og útboðum í heilbrigðiskerfinu. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi í hyggju að gera breytingar á þessu til að auðvelda útboð í opinberum rekstri.