135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:53]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil taka undir hugmyndir hv. þm. Þorvaldar Ingvarssonar í fyrirspurn hans. Mér finnst hún vera góð og ég tel að það veitti ekkert af því að vera með umboðsmann fyrir sjúklinga. Það hefur gefist vel að vera með umboðsmann barna og það hefur gefist vel að vera með umboðsmann Alþingis þó svo að Alþingi mætti kannski stundum taka meira mark á því sem umboðsmaður segir. Þetta er mjög þarft og ég styð það og legg til að menn beiti sér í því og hæstv. heilbrigðisráðherra verði ekki með hik á hlutunum heldur komi með tillögu um að sett verði á stofn embætti umboðsmanns sjúklinga því að þeir eiga ekki greiða leið að upplýsingum eins og er þó að landlæknisembættið eigi að sinna því. Það eru ýmsir þættir sem mega fara betur hjá sjúklingum.