135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur Ingvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka heilbrigðisráðherra fyrir góð svör. Ég er sammála því að sú ákvörðun sem tekin hefur verið um að skipa nefnd til að vinna að einföldun á öllum reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga geti bætt ástandið verulega og fagna því að hann hefur í hyggju að sjúklingar komi að ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfinu. Svar hans er því að svo stöddu gott svar í mínum huga.

Ég vildi í þessu sambandi reyndar nefna að í máli hv. þm. Ástu Möller kom fram að hægt væri að leggja ríkari kröfur á hendur heilbrigðisstofnunum og Tryggingastofnun ríkisins um frekari upplýsingaskyldu gagnvart sjúklingum. Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta en það hefur bara ekki gerst. Annaðhvort er skýringin á því sú að menn sinna ekki vinnu sinni eða þessar stofnanir vantar samkeppni eða aðhald. Raunveruleikinn er hins vegar sá sem við vorum að tala um.

Ég hef ekki á móti því að embætti landlæknis verði styrkt á þann hátt sem hv. þingmaður nefnir. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að kvartanir og kærur í heilbrigðiskerfinu eigi ekki endilega að vera til umfjöllunar á þann hátt sem þær eru í dag. Ég tel eðlilegt að um þær fjalli löglærðir menn og það fari í annan farveg heldur en er í dag. Ég held að hluti af því vandamáli að fólk treystir ekki sumu í kerfinu sé að heilbrigðisstarfsfólk er að rannsaka sín eigin vandamál. Það hefur alltaf verið svo og hefur út af fyrir sig gengið en ég held að það sé kominn tími til að velta fyrir sér breytingum í þeim efnum og reyndar ýmsu öðru hvað varðar rétt sjúklinga og þá sérstaklega hvað varðar sjúklingatryggingu.