135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[19:59]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig er að þessir gæluskattgreiðendur sem hv. þm. Atli Gíslason talar um eru einmitt þau 5% skattgreiðenda sem ég var að tala um að nytu sérstakrar umbunar og skattkerfið hefur þróast með þeim hætti vegna þess að tekjuskatturinn er ekki þrepaður. Þeir sem hafa ofurlaunin hafa fyrir sig að leggja margfalt það sem þeir sem lægri laun búa við. Það er óeðlilegt að hafa það þannig í þjóðfélaginu á árinu 2007 að bjóða borgurunum upp á jafnmikla mismunun hvað varðar skattheimtu og raun ber vitni.

Ég get tekið undir með hv. 7. þm. Suðurk. að það gengur ekki miðað við jafnræðisreglu stjórnarskrár að skattleggja borgarana misjafnlega, með jafnóréttlátum hætti og þeir eru skattlagðir sem minnst hafa fyrir sig að leggja miðað við hina sem hv. þingmaður nefndi gæluskattgreiðendur, þ.e. þeir sem hafa tekjur sínar eingöngu af fjármagnstekjum.

Einu sinni var bannað að taka vexti af dauðu fé en svo hefur hugmyndafræði kapítalistanna þróast frá þeim tíma að ofurást er lögð á hið dauða fé og það sem af því verður. Við frjálslynd erum með þessu frumvarpi að leggja áherslu á að skapa aukinn jöfnuð í þjóðfélaginu til að gæluskattgreiðendur njóti ekki alls en aðrir einskis.