135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:17]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að jafnrétti er þjóðarnauðsyn. En ég vil jafnframt minna hv. þingmann á að það eru nær 50 ár síðan sett voru jafnréttislög sem ekki hefur verið farið eftir. Það hefur verið reynt að nálgast þetta með jákvæðum hætti í jafnréttislögum en það hefur ekki dugað til og ég fór nákvæmlega yfir það í máli mínu. Jafnréttisáætlanir sem hv. þingmaður vísaði til hafa ekki dugað, þeim er ekki framfylgt og stór hluti fyrirtækja, sennilega er það ekki nema þriðjungur sem hefur sett sér jafnréttisáætlanir. Það hefur ekki dugað því jafnréttislögunum hefur verið breytt aftur og aftur. Við höfum sett þingsályktunartillögur aftur og aftur um hvernig framkvæma eigi jafnréttislögin en það hefur ekki dugað. Það er komið að því virðulegi forseti, að við förum að sýna aðeins klærnar í þessu máli.

Við setjum hörð lög ef brotin eru samkeppnisskilyrði í atvinnulífinu og á fjármálamarkaði. Við beitum dagsektum sem geta verið ein millj. kr. á dag. En það er ekkert gert ef jafnréttislögum er ekki framfylgt. Þegar kærunefnd úrskurðar brot á jafnréttislögum þá er úrskurði kærunefndar ekki einu sinni fylgt eftir. Hér erum við að fara væga leið um það að heimila Jafnréttisstofu að beita dagsektum til þess að framfylgja ákvæðum jafnréttislaga sem að hámarki getur orðið 50 þús. kr. á dag þegar við erum að tala um eina milljón kr. á dag þegar samkeppnislög eiga í hlut. Ég spyr hv. þingmann: Hvaða leið vill hann fara þegar við í nærri hálfa öld höfum ekki náð lengra en raun ber vitni í jafnréttismálum? Það er 12 ára stöðnun í því að ná niður launamun kynjanna. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja er innan við 10%. Hvaða leið vill hv. þingmaður fara til að breyta þessu, því ég heyri að hv. þingmaður vill breyta stöðunni? Ég spyr hann: Hvaða aðra leið vill hann fara? Það hafa allar aðrar leiðir til þess að ná árangri í jafnréttislögunum verið reyndar, allar aðrar en þær sem nú á að fara.