135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Atli Gíslason hafa viðhaft hérna afar sérkennilegan málflutning. Að vanda var hann afskaplega stóryrtur í sleggjudómum sínum og ég held að orð hans gengisfelli einfaldlega málflutning hans. Hann talar um stjórnarskrárbrot, rangindi í nefndaráliti, ærinn fyrirvara og að viðkomandi þingmaður hafi skömm á tilteknu vinnulagi.

Ég vísa svona málflutningi til föðurhúsanna. Ég vísa sömuleiðis í umfjöllun nefndarinnar sem hv. þingmaður situr í. Þar komu fram upplýsingar um að málið hefði einfaldlega komið of seint inn á borð nýs viðskiptaráðherra. Það kom enn fremur fram í framsöguræðu hæstv. viðskiptaráðherra. Þetta eru allt upplýsingar sem hv. þingmaður hefur og hefðu þar af leiðandi átt að geta haft einhver áhrif á hvernig hann hagaði málflutningi sínum hér áðan.

Málið kom einfaldlega of seint inn á borð nýs viðskiptaráðherra og það kom of seint fyrir sumarþingið. Þetta hefur margítrekað komið fram. Að sama skapi vil ég taka fram að mér finnst það ámælisvert, og hæstv. viðskiptaráðherra sagði líka í framsöguræðu sinni að það hefði verið ámælisvert, af hálfu þeirra sem fóru með málið að koma ekki með það fyrr inn til nýrra stjórnvalda.

En við sáum hvaða staða blasti við. Hver var hinn valkosturinn? Hann var einfaldlega að hætta við skólastarfið sem hafði verið auglýst í haust, hætta við að taka þessar íbúðir í gagnið, hætta við frekari uppbyggingu og atvinnu- og skólalíf á þessu svæði. Ef vinstri grænir hefðu stjórnað í sumar hefði raunin orðið sú, þá hefði skólastarf við Keflavíkurvöllinn ekki hafist. Sá er kjarni málsins.

Hv. þingmaður talar eins og að bráðabirgðalagaheimildin sé varla til í stjórnarskránni. Hún er í stjórnarskránni. Þessi meiri hluti mat það svo að hér væri brýn nauðsyn á ferðinni, annars hefðum við ekki stutt notkunina á þessari heimild.

Að lokum langar mig að minnast á varðandi það sem hv. þingmaður segir um að 94% (Forseti hringir.) af fyrsta áfanga sé lokið og því eigi einfaldlega bara að hætta við að staðfesta bráðabirgðalögin. Ég minni á að það er nokkuð sem heitir (Forseti hringir.) annar áfanginn og hann er eftir þannig að ég komi þeim upplýsingum á framfæri (Forseti hringir.) við hv. þingmann.