135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Seðlabanki Íslands ákvað í gær að hækka stýrivexti á einu bretti um 0,45 prósentustig, þ.e. í 13,75%. Það er ljóst að með þessu vill Seðlabankinn senda afar skýr skilaboð um strangt aðhald í peningamálum. Hvað sem mönnum finnst um þessa ákvörðun Seðlabankans — sem er ekki tilefni umræðna hér af minni hálfu heldur hitt að hún er staðreynd — þarf ekki að taka fram að þetta eru engar gleðifréttir fyrir útflutningsatvinnuvegi landsins eða skuldsett heimili því að þetta vaxtastig og hið háa raungengi krónunnar veldur þungum búsifjum í þessum tilvikum. Það er ljóst að Seðlabankinn telur sig afar einan í baráttunni við að kæla niður hagkerfið og halda aftur af verðbólgu og það er auðvelt að lesa bæði í línunum og milli línanna í stefnuyfirlýsingu hans frá því í gær að hann telur sig einan á báti í þessum efnum. Þannig segir t.d., með leyfi forseta:

„Fjárfesting hins opinbera hefur vaxið stórlega, þvert á fyrirheit og væntingar.“

Síðar í plagginu segir:

„Öllum má vera ljóst að því minna sem aðhaldið er á öðrum sviðum efnahagslífsins, í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, á vinnumarkaði og í útlánum fjármálafyrirtækja, því meira er lagt á stefnuna í peningamálum.“

Nú er í gildi óbreytt yfirlýsing, samkomulag ríkisstjórnar og Seðlabanka, frá 28. mars 2001 þar sem Seðlabankanum er falið að vinna samkvæmt verðbólgumarkmiðinu einu og að ríkisstjórnin veiti Seðlabankanum fullt svigrúm til að beita stjórntækjum sínum í því skyni, eins og þar segir. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ríkisstjórn hver afstaða hennar sé til þessarar ákvörðunar Seðlabankans. Má búast við því áfram að við horfum á það ástand að Seðlabankinn botnstígi bremsurnar en ríkisstjórnin sé á bensíngjöfinni? Hyggst ríkisstjórnin taka sameiginlega yfirlýsingu Seðlabankans og ríkisstjórnar í þessum efnum til endurskoðunar og hvers er að vænta í þessum (Forseti hringir.) efnum á næstunni?