135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

fjárfestingar í jarðhita í Suðaustur-Asíu.

[15:15]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að tala um sama efni og fyrri fyrirspyrjandi en það er af mörgu að taka í sambandi við útspil ýmissa ráðherra í ríkisstjórn og mismunandi skilaboð til þjóðfélagsins þannig að maður lendir ekki í vandræðum þó að maður fái ekki fyrsta tækifærið, það kemur eitthvað annað upp.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála hæstv. iðnaðarráðherra um þá gífurlegu möguleika í fjárfestingum í jarðhitanýtingu í Asíu sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði í gær að gætu orðið 50–100 milljarðar kr. á ári, á næstu tveimur til þremur árum og mundu síðan aukast og verða 200–300 milljarðar á ári innan tíu ára, eða sem sagt tvö þúsund milljarðar í ísl. krónum eftir u.þ.b. tíu ár. Hæstv. iðnaðarráðherra talar um að við Íslendingar berum þarna móralska skyldu, að koma þeirri þekkingu á framfæri sem við búum yfir á þessu sviði. Vissulega er þetta mál mér ekki alveg ókunnugt og ég hef nú talað eitthvað í þessa átt þó að ég hafi aldrei treyst mér til þess að nefna svona háar tölur. Ég get svona í „forbifarten“ sagt að ef ég hefði sagt þetta væri einhver af ungliðum Sjálfstæðisflokksins búinn að tjá sig um að svona vitleysu segði nú enginn nema Valgerður Sverrisdóttir.

Ég vil gjarnan fá að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort hann sér þessa gríðarlegu möguleika líka eða hvort hann er á annarri skoðun. Það er dálítið erfitt að átta sig á stefnu Sjálfstæðisflokksins í sambandi við útrás í orkugeiranum. Það virðist vera mikill ágreiningur innan flokksins en miðað við það að einn af ráðherrum í ríkisstjórninni hefur látið þessi orð falla hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur hér á hv. Alþingi og þjóðina að heyra hvort forsætisráðherra er á sömu línu og iðnaðarráðherrann.