135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:46]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þá hagsmuni sem hér eru í húfi er það rétt hjá hv. þingmanni að ég hef ekki nákvæma tölu um það en þetta lýtur að því að nýta 300–400 íbúðir. Þetta lýtur að uppbyggingu heils háskóla og því að bregðast við ákveðnu ástandi sem kom upp í kjölfar þess að herinn fór og skildi eiginlega eftir það þorp sem er núna uppi á velli.

Í annan stað vil ég segja, og hv. þingmaður veit það mætavel, að núverandi hæstv. viðskiptaráðherra, (Gripið fram í.) þingmaður Suðurkjördæmis, var ekki ráðherra í október eða nóvember eða desember 2006. Hæstv. ráðherra hlýtur að bregðast við þegar hann fær þær upplýsingar sem eru forsenda fyrir lagasetningunni. Það er ekki fyrr en í sumar. Það hlýtur að vera forsenda hans. Hann gat ekki brugðist við fyrr en hann fékk þessar upplýsingar. Tímasetningin er þess vegna afar eðlileg. Það verða ekki stjórnarskipti fyrr en í lok maí. Það er ekki fyrr en í kjölfar þess sem hæstv. ráðherra fær þá upplýsingar um þetta. Ég held að ekki sé hægt að setja þetta upp þannig að gagnvart honum hafi upplýsingarnar legið fyrir á þeim tíma.

Það má kannski gagnrýna þáverandi iðnaðarráðherra fyrir að hafa ekki brugðist við. Að minni hyggju eru klárlega miklir hagsmunir í þessu. Upplýsingarnar voru til staðar og þetta mál er allt annars eðlis.

Að lokum vil ég segja að það má vel vera að hv. þingmaður hafi gagnrýnt þá bráðabirgðalagasetningu sem þá var. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og hann var mjög gjarn á að gagnrýna ráðherra sína á sínum tíma sem reyndar varð svo kannski á endanum til þess að hann yfirgaf flokkinn. Þegar upp var staðið studdi hann það (Forseti hringir.) frumvarp sem kom inn og það var endanleg afstaða. Hún liggur fyrir skráð og bókuð í þingtíðindum.