135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara segja það enn og aftur að framsóknarmenn bera ábyrgð á hinum mikla vanda á landsbyggðinni. Þeir bera mesta ábyrgð á fiskveiðistjórnarkerfinu ásamt Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í: Það komu fleiri flokkar að því.) Það má segja að það sé alveg rétt en engir tveir flokkar bera meiri ábyrgð á sjávarútvegsstefnunni síðustu 22 ár en Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Þeir bera ábyrgð á fólksflóttanum af landsbyggðinni og þeir bera ábyrgð á því hvernig staðan er í sjávarútvegsmálum hringinn í kringum landið. Hv. þm. Bjarni Harðarson á ekki að reyna að koma sér undan þeirri ábyrgð sem Framsókn ber á þessum málum.

Þegar talað er um að reyna að gera breytingar á öðrum sviðum en snúa beint að veiðum eða hafrannsóknum eins og það að setja allan fisk á fiskmarkað, sem er þó til þess að tryggja mönnum jafnan aðgang að auðlindinni, í gegnum fiskmarkað, heilbrigt verslunarmunstur, heilbrigt kerfi til að versla með fisk, en afhenda hann ekki fáum útvöldum og leyfa þeim að braska með hann eins og þeim sýnist og verðleggja hann eftir eigin hag og hafa peninga af höfnum og annað í þeim dúr, þá er óþolandi að framsóknarmenn skuli ævinlega reyna að koma sér undan þeirri ábyrgð sem þeir bera á þessu bölvaða fiskveiðistjórnarkerfi.