135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að tala um víðtækara endurmat en bara það sem menn mundu kalla mat á varnar- eða öryggismálum í hefðbundnum skilningi þess orðs. Ég tel að meta eigi utanríkispólitíska stöðu Íslands að þessu leyti í heild sinni á nýjum grunni og að við eigum kjörið tækifæri til þess að endurmeta þá hluti þegar það fagnaðarefni ber okkur að höndum að erlendur her hverfur loks úr landinu vegna þess að hann telur enga þörf lengur fyrir veru sína hér sjálfur. Þá finnst mér það ákaflega umhendis að við förum að reyna að sannfæra okkur um að það verði samt eitthvað að koma í staðinn, þannig að við verðum að reyna fá Norðmenn og Frakka og Spánverja til að koma hingað svona af og til með herþotur því að annars líði okkur illa. En bandaríski herinn sem á að hafa eitthvert vit á þessu taldi enga þörf fyrir veru sína sjálfir. Samfylkingin er greinilega ósammála honum og telur að hér þurfi samt eitthvað sem að vísu má ekki kalla harðar hervarnir heldur mjúkar. Það er orðalagið sem notað er í skýrslu utanríkisráðherra og vísar sjálfsagt til þess sem hv. þm. Árni Páll Árnason var að tala um, aðildina að NATO, um þróun þess fyrirbæris.

Um þann klúbb erum við í grundvallaratriðum ósammála. Ég tel að þróunin í NATO síðastliðin 15 ár sé hörmuleg og mannkynið glataði sögulegu tækifæri að menn skyldu ekki leysa NATO upp eftir að Varsjárbandalagið leystist upp og hverfa frá hugsun hernaðarbandalaganna til alþjóðlegrar lýðræðislega uppbyggðrar öryggisgæslu í heiminum og efla stofnanir eins og ÖSE, og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í því skyni og láta þær fá sínar eigin sveitir til friðargæslu í staðinn fyrir að þurfa áfram að byggja á hernaðarhugsuninni og afnotum af sveitum herja til friðargæslu í heiminum. Ég tel þróun NATO vera þvert á móti mjög varhugaverða og Ísland eiga enn síður erindi í þann klúbb í dag en það gerði áður fyrr.