135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum.

[15:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka hér upp mjög misvísandi yfirlýsingar einstakra ráðherra í ríkisstjórninni um stöðu stóriðjumála eða stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Hæstv. forsætisráðherra var í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun og var þá m.a. spurður út í stöðu stóriðjumála og hvort nýleg ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar hefði þar áhrif á. Hæstv. forsætisráðherra kvað svo ekki vera, hér væri ekki um pólitíska ákvörðun að ræða heldur viðskiptalega ákvörðun fyrirtækisins og engin stóriðjuáform væru í sjálfu sér útilokuð af þessum sökum og engin stefnubreyting hefði orðið hjá ríkisstjórninni. Þetta er allt annað en ráða má af lestri afurða hins mjög svo ritglaða hæstv. iðnaðarráðherra, eða á maður kannski að segja bloggarans Össurar Skarphéðinssonar. Þar er ekki annað en sjá en ríkisstjórnin sé að taka meiri háttar beygju og hverfa frá því sem þar er kallað „hin blinda stóriðjustefna framsóknarmanna“. En forsætisráðherra les sem sagt öðruvísi í þessa hluti og það skyldi nú ekki vera að hann sjái hvað á bak við liggur af hálfu Landsvirkjunar, enda virðist ekki allt sem sýnist ef netþjónabú sem á að nota 5–8 megavött af raforku í fyrstu lotu er notað sem réttlæting fyrir 250 megavatta virkjunum í heild sinni, þ.e. öllum virkjununum í Neðri-Þjórsá. Og jafnvel þó að kísilhreinsun eða kísilflöguframleiðsla, sem er meðalstór iðnaðarkostur og notar kannski tugi megavatta í afli, bætist þar við er ljóst að einungis minnsta virkjunin af þremur í neðsta hluta Þjórsár dygði.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Á hverju á að taka mark? Gilda yfirlýsingar iðnaðarráðherra um stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnar eða gilda orð hans frá því í morgun um að þetta hafi engin áhrif og afstaða og stefna ríkisstjórnarinnar sé óbreytt? Reyndar hefði maður getað búist við því að hæstv. forsætisráðherra hefði tekið því fagnandi að reyna að slá á væntingar um stóriðjuframkvæmdir í ljósi upplýsinga um verðbólgu sem voru að koma fram en hæstv. forsætisráðherra kaus að gera það ekki. Það verður fróðlegt að heyra svör hæstv. forsætisráðherra.