135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:33]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þau sjónarmið sem hér eru sett fram verðum við að ganga úr skugga um hvort einhver mannréttindi séu skert. Í sjálfu sér tel ég að það sé ekki vandamál fyrir samkynhneigða að fá kirkjulega vígslu. Þeir geta það ekki innan þjóðkirkjunnar en þeir geta það í ýmsum öðrum trúfélögum þannig að það á ekki að vera vandamál að fá kirkjulega vígslu.

Síðan er spurningin um hvort við ætlum að neyða einhverjum sjónarmiðum upp á tiltekinn félagsskap hvort sem það heitir þjóðkirkja eða eitthvað annað. Ég sé ekki að það sé verkefni eða hlutverk Alþingis að standa að slíku.

Varðandi spurninguna um það hvort viðkomandi geti byggt á einhverju orði eða heiti þá getur viðkomandi gert svo óháð því sem stendur í lögum. Á sínum tíma voru í hjúskaparlögunum ákvæði um hvernig hjón skyldu vera hvort við annað. Það hafði í sjálfu sér enga sérstaka þýðingu að lögum þótt það væru út af fyrir sig gagnmerkar hugmyndir sem þar kæmu fram og væru til bóta í öllum hjónaböndum ef þeim ákvæðum væri fylgt. En það skiptir í sjálfu sér ekki máli, ekki frekar en varðandi almenn mannréttindi, hvort fólk geti kallað sig hjón eða sambúðarfólk. Það er ekki höfuðatriði.

Varðandi síðan það sem ég vísaði til varðandi kynhneigð þá verðum við að átta okkur á því að hún er mörg og mismunandi. Sum er gerð ólögleg. Ég sé enga ástæðu til að geta um það hér en það þarf ekki annað en að fletta því upp í almennum hegningarlögum. Ég skal fræða flutningsmann um það ef hún óskar en það er alveg ljóst. Við erum væntanlega sammála um að ákveðin kynhneigð sé og eigi að vera ólögleg.