135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

121. mál
[14:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er tilfinning mín að þegar farið var í það að kortleggja vegi og slóða hafi menn séð, og það er líka sú tilfinning sem menn eins og Jón G. Snæland hafa, en hann er sá sem hefur kannski haft mesta forustuna um þetta hjá Ferðaklúbbnum 4x4, að þetta er stærra verkefni en þeir ætluðu í fyrstu þegar vinnan hófst við að fara skipulega yfir svæði fyrir svæði, því að það eru svo margir slóðar á hverju svæði.

Það er mjög mikilvægt að spýta í lófana til að klára málið og miðað við tölur kostar þetta ekki mikið. Ég rýndi í tölur fyrir ekki löngu síðan og þá var áætlað að það kostaði um 9 millj. kr. að klára 4 þúsund kílómetra. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að 1.000 kílómetrar séu ókortlagðir. Ef það er rétt þá er það kostnaður upp á 2–3 milljónir, það er ekki mikill kostnaður. Það er afar brýnt að setja meiri kraft í þetta og klára málið vegna þess að þótt búið sé að kortleggja vegi og slóða þá er björninn ekki unninn af því að þá á eftir að hafa samráð við sveitarfélögin og ræða við þau og aðra hagsmunaaðila, ræða við klúbba eins 4x4, VÍK og fleiri um það hvað á að vera opið, hvað á að vera lokið, hvenær á að vera opið hér og hvenær lokað þar o.s.frv. Það er mjög þungt ferli, við þekkjum það.

Væntanlega þarf síðan að auglýsa vegina og slóðana sem skipulagstillögur, gefa mönnum kost á athugasemdum o.s.frv. og fara með þetta í skipulagsferli eins og í skipulagsmálum hjá sveitarfélögunum. Þetta er heilmikið ferli og þess vegna verður að fara að ljúka við kortlagninguna. Mál hafa verið að falla fyrir dómi af því að lögin eru ekki nógu skýr, þ.e. af því að ekki er nógu skýrt hvað er vegur og hvað er slóði. Ég tek undir að við eigum auðvitað að andmæla því eins og við mögulega getum að fólk keyri utan vega en þá verðum við líka að hafa það skýrt hvað er vegur, hvað er slóði og hvað ekki.