135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

eignir Ratsjárstofnunar.

156. mál
[15:38]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um áðan fluttist Ratsjárstofnun og verkefni hennar ekki yfir til íslenska ríkisins fyrr en 15. ágúst sl. en fram til þess tíma var stofnunin á forræði Bandaríkjamanna. Þó að ég ætli ekkert að fullyrða um það geri ég ráð fyrir að ekki hafi komið sérstaklega til kasta utanríkisráðuneytisins að hafa þennan tiltekna hátt á varðandi þessar húseignir, þ.e. að þær skyldu vera í fjármögnunarleigu. Hvernig sem því er háttað er ljóst að Ratsjárstofnun átti ekki eignirnar og þess vegna runnu þær til sinna réttmætu eigenda þegar hætt var að nýta þær í þágu Ratsjárstofnunar.

Ég veit ekki hvernig sölu þeirra var háttað. Aðalatriðið í þessu máli hlýtur hins vegar að vera það að þessar húseignir, þessi íbúðarhús, séu notaðar og standi ekki auðar, burt séð frá því hvernig eignarhaldi á þeim er háttað.