135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa komið fram áhugaverðar ábendingar. Spurning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur var hvort ráðherra ætlaði bara ekki að flytja málaflokkinn. Hún sagði að þetta væri svo einfalt og ráðherra hefði heil fjögur ár til að gera þetta. Nú er þetta þannig og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir veit það auðvitað jafn vel og allir aðrir að ráðherra flytur ekki málaflokka si svona. Það er bara ekki gert.

Við þekkjum að mikil umræða hefur verið í gegnum tíðina um að flytja hinu ýmsu málaflokka yfir til sveitarfélaga. En sem betur fer þarf tvo til að ná niðurstöðu í því. Ég hélt að þingheimur vissi þetta. Ef þetta væri svo einfalt þá hefði væntanlega eitthvað gerst hvað þetta varðar á síðustu 12 árum, mundi maður ætla, virðulegi forseti.

Ég held að það sé rétt að menn tali um hlutina eins og þeir eru. Mér fannst hv. þm. bæði Ragnheiður Elín Árnadóttir og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gera það ágætlega. Ég held að það sé víðtæk samstaða um að nærþjónusta sé almennt betur komin hjá sveitarfélögunum, það sé almenna reglan. Við erum í þeirri stöðu eins og við þekkjum að sveitarfélögin á Íslandi eru vægast sagt misjöfn. Við erum með 50 manna sveitarfélag og við erum með 116 þúsund manna sveitarfélag. Ég býst fastlega við því að það sé eina ástæðan fyrir því að gengið hafi hægt í ýmsu sem snýr að því að færa verkefni á milli þótt pólitískur vilji sé fyrir því.

Skýrt dæmi um þetta eru málefni fatlaðra sem ég held að menn hafi í áratug rætt um að færa á milli, til sveitarfélaga, en ekkert gengið eins og allir vita. Málið er ekki einfalt. Í mínum huga er hins vegar algjörlega ljóst að fólk getur ekki beðið eftir þessu. Þess vegna hóf ég strax undirbúning þess að samþætta þessa þjónustu. Hvers vegna? Vegna þess að fólkið getur ekki beðið og það (Forseti hringir.) er útgangspunkturinn.