135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:21]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir þessar hugleiðingar. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki alveg spurningunni. Ég vil benda á að eins og segir í sameiginlegu áliti okkar nefndarmanna í fjárlaganefnd er 58% allra virkra vinnustunda varið til fjárhagsendurskoðunar og 17% til stjórnsýsluendurskoðunar. Hægt er að útvista verkefni líkt og ég kom að í ræðu minni en Ríkisendurskoðun hefur fengið löggilta endurskoðendur til að vinna ákveðinn þátt í umræddri fjárhagsendurskoðun. Ég benti á þau hlutföll.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Jón Bjarnason boði hér að bjóða eigi út mun fleiri verkefni á vegum fjárhagsendurskoðunar eða útvista þau til einkaaðila, einkarekinna löggiltra endurskoðenda, til yfirferðar þannig að stofnunin hafi frekar tækifæri til að stunda stjórnsýsluendurskoðun?

Ég mun ekki mæla fyrir því hvernig Ríkisendurskoðun hagar störfum sínum í þessum hlutföllum. Ég get hins vegar alveg tekið undir að sá þáttur sem lýtur að stjórnsýsluendurskoðun verður sífellt mikilvægari í störfum okkar á þinginu og mikilvægt er að efla hann enn frekar.

Ég ætla ekki að tjá mig um hvort Ríkisendurskoðun endurskoði reikningana innan húss eða bjóði þá út, það er fyrst og fremst stofnunarinnar að ákveða það.