135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[15:57]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég harma það að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tali niður til sveitarstjórnarmanna í Flóahreppi. Það er ekki við hæfi að hv. alþingismenn tali niður til sveitarstjórnarmanna. Sveitarstjórn Flóamanna hefur fullt sjálfstæði og umboð til að taka ákvarðanir í sínum málum og það þýðir ekkert að hrópa á hjálp út og suður þó að niðurstaða þeirra sé andsnúin því sem hv. þingmanni finnst. Það eru ekki vinnubrögð sem eru til sóma. Það er að bíta í skottið á sjálfum sér að fara þannig á bak við það að sveitarstjórn Flóamanna hefur fullt umboð og fullt vit til að taka ákvörðun fyrir hönd umbjóðenda sinna. Til þess er hún kjörin, þannig vinnur hún og það á að virða. Það er svo allt annað mál hvort menn hafa önnur sjónarmið en það er ekki hægt að ganga fram til leiks og heimta að til að mynda hv. alþingismenn eða aðrir í stjórnkerfinu hafi vit fyrir sveitarstjórn Flóamanna. Þeir hafa vit fyrir sér sjálfir og hafa fulla reynslu, þekkingu og vilja til þess eins og þeir hafa sýnt í svo mörgu.