135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:32]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að koma upp í andsvar þar sem ég á ekki tök á að taka þátt í umræðunum á eftir og fulltrúi flokksins í heilbrigðisnefnd, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, er erlendis.

Einu er svolítið erfitt að átta sig á í frumvarpinu og alls ekki hægt að átta sig á eftir framsöguna. Hún fór þannig fram að stundum var erfitt að greina orðaskil.

Á bls. 7 í frumvarpinu segir að gera eigi breytingar á 44. og 48. gr. laganna um almannatryggingar og skilja á milli heilbrigðisþjónustu aldraðra sem heilbrigðisráðuneytið muni áfram sinna og búsetuúrræða og almennrar öldrunarþjónustu sem flutt verði til félagsmálaráðuneytis. Fram kemur að taka muni nokkurn tíma að skilja á milli þess sem telst almenn öldrunarþjónusta og þess sem telst heilbrigðisþjónusta við aldraða. Það er gert ráð fyrir því að ráðuneytið vinni að því að skilgreina þessa þætti nánar og móta hvernig samskiptum við greiðslur til öldrunarstofnana verði háttað í framtíðinni. Talað er um að það þyrfti að skipta daggjöldum í tvennt, annars vegar vegna heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið veitir og síðan vegna búsetu og almennrar öldrunarþjónustu, sem félagsmálaráðuneytið mundi veita.

Mér þætti fróðlegt að fá að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra skilgreina þetta betur. Er átt við að dvalarheimilin flytjist til félagsmálaráðuneytisins? Heimahjúkrun verði áfram hjá heilbrigðisráðuneyti og hjúkrunarrými áfram hjá heilbrigðisráðuneyti, en hvað með minni sjúkrahús úti á landi sem eru að vissu leyti í eðli sínu mjög nálægt því að vera með þjónustu dvalarheimila? Verða þau áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu eða flyst það yfir? Hvaða önnur almenn öldrunarþjónusta er þetta sem hér er vísað í sem á að fara yfir til félagsmálaráðuneytisins?