135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

aukatekjur ríkissjóðs.

234. mál
[16:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Breytingarnar sem lagðar eru til eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að einstökum ákvæðum 11. gr. laganna, sem fjallar um leyfi fyrir atvinnustarfsemi, verði breytt til samræmis við breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þannig verði orðalagi greinarinnar og tilvísunum breytt til samræmis við önnur lög og úreltir liðir felldir brott.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir. Það er gert í samræmi við ákvörðun ráðherraráðsins frá 1. júní 2006 um gjöld sem greiða skal fyrir vegabréfsáritanir vegna kostnaðar sem fellur til við útgáfu þeirra.

Í þriðja lagi er lagt til að fellt verði brott gjald fyrir aðgangsheimildir að varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli, enda þess ekki þörf lengur, og sömuleiðis fyrir starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga þar sem starfsemi þeirra verður ekki lengur heimil frá næstu áramótum.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.