135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:36]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að þessu sinni get ég ekki þakkað hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir svörin því þau voru engin. Það komu engin svör og ekki heldur hvaða skoðun hv. þingmaður kunni að hafa á þessu eða hvert er álit og skoðun Ríkisendurskoðunar, formanns efnahags- og skattanefndar og fjármálaráðherra á þessu.

Svör við öllum þessum spurningum rúmuðust innan tveggja mínútna svars, snarps gagnorðs tveggja mínútna svars. Það kom ekkert svar sem segir mér (GSv: Þú verður bara að lesa svarið þegar það kemur út.) að það er eitthvað meira en lítið að í þessu máli, að þarna hafi verið brotnar reglur. Ég treysti auðvitað hv. formanni fjárlaganefndar að taka snöfurmannlega á þessu. Hann gengst undir ákveðna prófraun í þessu máli. Nú reynir á hverjir standa í fæturna og hverjir ekki, hvort snúið verður ofan af því sem blasir við mér eftir stutta skoðun á þessu máli í dag og rétt um helgina, að hér sé um skýr brot á lögum um opinber innkaup að ræða. Þetta fer klárlega í bága við þá grein sem ég las, 85. gr. laganna um opinber innkaup. Eina úrræðið í þeim efnum þegar slíkt gerist er að snúa snarlega ofan af brotunum.