135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það kemur mér mjög á óvart að menn skuli efast um þær lagaheimildir sem liggja fyrir því fyrirkomulagi sem er í gangi á Keflavíkurflugvelli, því að í lögum nr. 176, 20. desember 2006, lögum um ráðstafanir í kjölfar samningsins við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Heimilt er að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not og merkt er sem svæði C í fylgiskjali.

Enn fremur er heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á flugvallarsvæði og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun og umbreytingu flugvallarsvæðis og starfssvæðis.

Forsætisráðherra fer með hlutafé ríkisins í félaginu.“

Forsætisráðherra skipar jafnframt þriggja manna stjórn félagsins og sú stjórn hefur ráðið félaginu framkvæmdastjóra. Við félagið var gerður samningur um það hvernig staðið skyldi að sölu eignanna og í þeim samningi er áskilið að fullnægja skuli öllum þeim skilyrðum sem fullnægja þarf þegar eignir ríkisins eru seldar. Ég veit ekki betur en það hafi verið gert. Ég verð því að lýsa undrun minni yfir því að svo skýr texti skuli vera dreginn í efa og svo skýr framkvæmd sem ég tel að þarna hafi verið um að ræða. Ég veit eiginlega ekki hvernig á að fara að því að koma slíkum hlutum fyrir öðruvísi og á opnari hátt en þarna hefur verið gert. Það fór ekkert á milli mála þegar Þróunarfélagið var stofnað hvert væri hlutverk þess og það fer heldur ekkert á milli mála í þessum texta hvert er hlutverk þess. Það fer ekkert á milli mála í samningnum sem gerður var við félagið hvað eigi að gera og hvernig eigi að gera það og ekki heldur hver fer með forræði félagsins og hvernig stjórnin er skipuð og hvernig starfseminni er háttað. Síðan þarf að gera á fullnægjandi hátt grein fyrir starfsemi félagsins í fjárlögum, ríkisreikningi og ríkisbókhaldi og hvernig það verður gert verður fjallað um í fjárlaganefnd meðal annars. Ég legg áherslu á að það verði gert á eins skýran og opinn hátt og mögulegt er til að forðast það að einhver vafi leiki á um lögmæti þeirra hluta sem þarna eiga sér stað sem ég tel að ekki eigi að vera og við eigum að gæta þess í allri umfjölluninni að hann þurfi ekki að koma upp að óþörfu.