135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

varðveisla Hólavallagarðs.

51. mál
[16:52]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir góðar undirtektir við þetta mál sem ég tel vera mjög mikilvægt mál eins og ég heyri að þær eru sammála mér um.

Kirkjugarðurinn við Suðurgötu er vin í borginni. Hann er mikilvægur, ekki bara fyrir hverfið, heldur fyrir alla. Unnið er að verndun garðsins eins og kemur fram í greinargerðinni en taka þarf ákvörðun um að svo verði áfram og sem betur fer verið að huga að verðmætum í garðinum og tryggja að þær eyðileggist ekki.

Mig langar að nefna ferðaþjónustuna í þessu sambandi vegna þess að ég hef persónulega haft mjög mikinn áhuga á kirkjugörðum í útlöndum og hef orðið vör við að það er mjög mikið um að ferðamenn heimsæki kirkjugarða, t.d. í borgum þar sem þeir koma. Ég hef farið í kirkjugarða í Moskvu og í Havana á Kúbu og reyndar út um allan heim. Þeir eru svo merkilegar heimildir um þær þjóðir sem byggja löndin sem maður heimsækir. Þannig er þessi garður auðvitað líka og hann gæti því verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Mig langar líka að nefna það vegna þess hve garðurinn er merkilegur á Evrópuvísu að Fornleifavernd ríkisins hefur tekið á móti útlendingum, yfirmönnum erlendra kirkjugarða og öðrum sem hafa áhuga á þessum málum, í sérstökum ferðum til að skoða þennan kirkjugarð á Íslandi, við Suðurgötuna. Hann er því þekktur meðal þeirra sem starfa að þessum málefnum í öðrum löndum sem mjög merkilegur garður.

Það var líka gaman að heyra lýsingu hv. þm. Ólafar Nordal á því hvernig garðurinn byggðist upp þegar spænska veikin gekk hér á landi. Það er alveg rétt og sá hluti garðsins sem hún nefndi er mikil heimild um ástandið í samfélaginu á þeim tíma.

Loks langar mig, af því ég kom því ekki að áðan þegar ég mælti fyrir málinu, að nefna hinar merkilegu lágmyndir og listaverk sem eru á minningamörkunum í garðinum, eins og t.d. lágmyndirnar eftir Einar Jónsson og Ríkharð Jónsson. Þær eru nefnilega mjög merkilegar heimildir um list þessara sögufrægu listamanna. Svo er náttúrlega um margt, margt fleira í garðinum sem of langan tíma tæki að nefna hér.

Virðulegi forseti. Ég vil ekki lengja umræðuna. Greinargerðin segir mikla sögu og ég hvet fólk sem hefur áhuga á þessum málum til að lesa hana. Hér fylgir líka með sem fylgiskjal umsögn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um garðinn þegar hann var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005 og í ljósi þeirrar tilnefningar ákvað ég að vísa málinu til hæstv. umhverfisráðherra. Ég tel þess vegna rétt að vísa málinu til hv. umhverfisnefndar að lokinni þessari umræðu.