135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[16:57]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get hafið ræðu mína á svipaðan hátt og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði áðan þegar hún hóf að mæla fyrir máli sínu um Hólavallakirkjugarð og verndun hans, sem meðal annarra orða ég styð af heilum hug, hún sagðist vera að mæla fyrir málinu í fimmta sinn og það gætti örlítillar þreytu í málrómnum.

Hér mæli ég fyrir þingsályktunartillögu sem ég er að mæla fyrir í áttunda sinn þannig að við hv. þingmaður getum farið í keppni um það hvor mælir oftar fyrir málum sínum. Ég get sagt við hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur að hún er þó í þeirri stöðu núna að vera stjórnarþingmaður og ætti þess vegna að eiga talsverða möguleika á því að koma máli sínu um Hólavallagarð alla leið og ég vona sannarlega að það gerist. Mín staða er hins vegar ekki sú. Eins og kunnugt er er ég í stjórnarandstöðu og geri því ráð fyrir að það verði erfiðara undir fæti fyrir mig að koma mínu máli áfram þó að ég voni sannarlega að straumarnir séu farnir að snúast í þá veru að hér verði breyting á.

Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár, á þskj. 48. Tillagan hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina en hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum og frekari virkjunum í Þjórsá en orðið er. Jafnframt verði tryggð verndun Þjórsárvera í heild sinni með stækkun friðlandsins þannig að það nái til náttúrulegra marka veranna ásamt með Þjórsá og nærliggjandi svæðum að Sultartangalóni. Stækkað Þjórsárverafriðland verði sem fyrst tilnefnt á heimsminjaskrá UNESCO. Undirbúningur málsins miðist við að hægt verði að auglýsa hin nýju friðlandsmörk í ársbyrjun 2008.“

Eins og ég sagði þá höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram tillögur á Alþingi um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum árlega síðan á 127. löggjafarþingi. Það var veturinn 2001–2002. Síðustu tvö löggjafarþing hafa þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki verið meðflutningsmenn á þingsályktunartillögunni. Það er kannski rétt að geta þess hér að framsóknarmaðurinn sem flutti tillöguna með okkur eitt ár eða tvö, sennilega tvö, var Kristinn H. Gunnarsson sem er reyndar ekki lengur í Framsóknarflokknum þannig að við vitum ekki enn um stuðning framsóknarþingmanna við tillöguna. Þar að auki hafa þingmenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lagt til að heimild iðnaðarráðherra frá árinu 2003 til að leyfa gerð Norðlingaölduveitu verði numin á brott úr lögum.

Svo öllu sé til haga haldið, virðulegi forseti, langar mig til að nefna það að einnig hafa fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins, annars vegar hv. fyrrverandi þingmaður, Katrín Fjeldsted, og hins vegar hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, lýst sjónarmiðum sem eru í dúr við þessa tillögu og Katrín Fjeldsted var raunar fyrst þingmanna til að flytja tillögu um að verin yrðu sett á heimsminjaskrá UNESCO sem nú er hluti af þessari tillögu. Það er alveg ljóst að gríðarlega víðtækur stuðningur er í öllum flokkum við að tillagan nái fram að ganga. Hún hefur verið send út til umsagnar oftar en einu sinni. Í annað sinn sem hún var flutt var hún send til umsagnar til nokkurs fjölda aðila, ef ég man rétt eitthvað á annan tug aðila. Tillagan fékk afar jákvæðar undirtektir vægast sagt. Af þeim sem gáfu umsagnir um tillöguna voru einungis tveir aðilar sem voru á móti henni. Það var annars vegar Landsvirkjun og hins vegar hreppsnefnd Ásahrepps.

Í fjórða sinn sem tillagan var flutt hafði verið bætt við hana enda hafði baráttan um Þjórsárver magnast á þeim tíma sem liðinn var frá því að hún fyrst kom fram. Þá hafði Landsvirkjun sett sér það markmið að reisa Norðlingaölduveitu með Norðlingaöldulóni í 568 metra hæð yfir sjávarmáli ásamt set- og veitulóni sunnan Þjórsárjökuls. Það var ljóst að bæði lónin mundu skerða náttúruverndargildi veranna umtalsvert og einnig minnka ósnortin víðerni á hálendi Íslands og það var mat okkar flutningsmanna tillögunnar þá að það væri búið að sauma nóg að Þjórsárverum með veitu- og virkjunarframkvæmdum og þá töldum við að rétt væri að tryggja vernd veranna til frambúðar með því að stækka friðlandið svo mikið að ekki yrði af frekari framkvæmdum í næsta nágrenni þeirra.

Í fimmta sinn sem við fluttum hana voru komnir til liðs við okkur þingmenn úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Þá var líka komið inn ákvæði um að setja ætti verin á heimsminjaskrá UNESCO. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og baráttan um Þjórsá stendur enn. Ekki bara um Norðlingaölduveitu því að nú hefur baráttan um virkjanir í Neðri-Þjórsá harðnað verulega.

Nú er svo komið að Landsvirkjun hefur fengið í hendurnar 93% vatnsréttinda úr hendi ríkisstjórnarinnar. Landsvirkjun getur því í krafti eignarhalds á þessum vatnsréttindum farið gegn þeim aðilum sem eiga 7% vatnsréttindanna í Þjórsá en það eru bændur og landeigendur við neðri hluta Þjórsár sem eiga í vök að verjast í baráttunni við ofureflið, Landsvirkjun, sem hefur í umboði ríkisstjórnarinnar völd á 93% vatnsréttindanna.

Málið hefur borið að og komið í fjölmiðla með ýmsum hætti. Það hafa verið stofnuð samtök til verndar Þjórsá sérstaklega, Sól á Suðurlandi. Þau hafa háð mikla baráttu, ekki bara íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eða landeigendur þar, heldur hefur líka staðið styr um Urriðafossvirkjun niðri í Flóahreppi. Baráttan um hana hefur breyst vegna þess að nú nýverið ákváðu skipulagsyfirvöld í hreppnum að setja Urriðafoss inn á aðalskipulag hreppsins en þannig var það ekki áður. Þarna hafa því orðið talsverðar breytingar og við vitum svo sem ekki hvernig barátta íbúanna sem eru mótfallnir Urriðafosslóni og Urriðafossvirkjuninni breytist.

Ein baráttukona á það skilið, hæstv. forseti, að vera nefnd sérstaklega til sögunnar hér. Það er Jóhanna Jóhannsdóttir sem er 93 eða 94 ára gömul. Hún býr í Haga og hefur búið þar í 60 ár. Það hefur verið gefið út veggspjald með ákaflega fallegri mynd af Þjórsá og regnboga sem teygir sig hátt upp í himininn og fremst í myndletrinu stendur Jóhanna Jóhannsdóttir á rauðri kápu, baráttuglöð að vanda og textinn sem stendur undir myndinni er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ég vaknaði klukkan sex annan mánudag ágústmánaðar, alheiðríkt var og blæjalogn, aðeins þokuband neðst á austurfjöllum en Hekla, Tindfjallajökull og Eyjafjallajökull böðuðu sig í morgunsólinni. Bjólfell, Selsundsfjall, Þríhyrningur og Þjórsá nutu sólar en Hagafjall skyggði enn á hana svo bærinn og túnin voru í skugga. Fljótlega komst sólin upp fyrir fjallsbrúnina. Fegurðin var alger. Þjórsá sem oft er skollituð af jökulframburði sýndist blá. Sker, Skógarhólmar og Hagaey blöstu við mér úr suðurglugganum. Ég var með sjónauka og sá fuglana lyfta sér til flugs upp á túnin.

Kvikar allt af kæti

kringum gamla bæinn

líf og gleðilæti

langan sumardaginn.

Mér var hugsað til Landsvirkjunar sem ef til vill sekkur svo túnunum í Haga á þessari fallegu landnámsjörð að ekki verði búandi hér lengur og enginn situr við glugga og dáist af fegurðinni eða nýtur góðs af gæðum jarðarinnar. Það er mikið vald sem fáeinir gróðahyggjumenn taka sér.“

Hæstv. forseti. Þetta er tilvitnun í orð Jóhönnu Jóhannsdóttur og þau segja miklu meira en mörg orð um það hvernig fólkinu í sveitinni líður.

Ég sagði áðan að málið hefði komist í fjölmiðla með ýmsum hætti frá því að baráttan fyrir verndun Þjórsár hófst. Okkur sem fylgjumst með fréttaflutningi af þessum málum er minnisstætt þegar fréttist af bréfi í mars sl. sem sóknarpresturinn á Stóra-Núpi, Axel Árnason, skrifaði til skipulagsyfirvalda. Það fer reyndar tvennum sögum af því hvort bréfið var skrifað til Skipulagsstofnunar í Reykjavík eða hvort það var til skipulagsyfirvalda í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. En í öllu falli sagðist presturinn í bréfinu hafa orðið þess áskynja í störfum sínum að fyrirhugaðar framkvæmdir Landsvirkjunar, virkjunarframkvæmdir sem hafa staðið fyrir dyrum hafi vakið upp ugg í brjóstum mjög margra sóknarbarna samfara vanlíðan. Hann sagði sóknarbörnin upplifa þetta sem svo að verið væri að farga landslagi, það væri verið að farga fornminjum og náttúruminjum og fólk upplifði þetta sem valdbeitingu þegar fólk heyrði að það væri búið að bjóða út hönnun mannvirkja án þess að búið væri að semja við landeigendur um bætur fyrir eignarlönd þeirra. Fólk skildi þessa undirliggjandi öldu eignarnáms sem allir hræðast og af eðlilegum ástæðum óttaðist fólk um stöðu sína ef það hreyfði mótmælum. Presturinn sagði að fólki fyndist að gjá hefði myndast á milli þeirra sem væru framkvæmdunum fylgjandi og þeirra sem væru framkvæmdunum andvígir með tilheyrandi sálarsárum.

Nú fór það svo eins og sagt var frá því í fjölmiðlum, ég er einungis hér með útskrift úr fjölmiðlafréttum fyrir framan mig um þetta mál, að séra Axel Árnason, sóknarprestur á Stóra-Núpi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, var fenginn til að draga til baka þetta bréf sitt. Það hafði verði kvartað til biskups Íslands sem kom þeim skilaboðum á framfæri við vígslubiskup í Skálholti að það þyrfti að gefa sóknarprestinum tiltal, hann mætti ekki tjá sig með þessum hætti og honum var gert að draga bréfið til baka sem hann og gerði.

Þessi saga sem kom til okkar í fjölmiðlum í mars sl., virðulegi forseti, sýnir okkur hversu ójafn þessi leikur er þegar um fáa landeigendur er að ræða annars vegar og öflugt fyrirtæki í opinberri eigu eins og Landsvirkjun er hins vegar. Mér hefur því þótt það afar miður þegar ég heyri nýjan umhverfisráðherra gefa þær yfirlýsingar í fjölmiðlum að lítið sé hægt að gera vegna þess að það séu engin tæki í lögunum sem ríkisstjórnin hafi til að beita gegn stóriðjustefnunni og gegn þessum virkjanaáformum en þá hef ég viljað benda hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórninni á það að við eigum enn þá Landsvirkjun. Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki í eigu okkar allra. Þess vegna tel ég að það sé rangt hjá umhverfisráðherranum að við höfum ekki tæki til að stjórna þessari miklu ásókn í náttúruperlurnar okkar. Ef Samfylkingin meinar eitthvað með ummælum sínum í kosningabaráttunni og sínu Fagra Íslandi þá tel ég að tími sé kominn til þess að Samfylkingin tali skýrt í ríkisstjórnarsamstarfinu og bregði á það ráð að gefa út yfirlýsingu um að ekki verði farið með valdi gegn þeim landeigendum við neðri hluta Þjórsár sem vilja ekki fórna landi sínu undir uppistöðulón.

Hæstv. forseti. Það er margt sem ég gæti sagt áfram um örlög Þjórsár og Þjórsárvera en mig langar til að nota þessar síðustu sekúndur sem ég á eftir af ræðu minni með því að vitna í skrif Guðmundar Páls Ólafssonar sem hefur gefið út bók um Þjórsárver. Í bókinni segir hann að blikur séu á lofti og enn sé vélað og orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

„Hvernig sem fer verða örlög Þjórsárvera skilaboð til okkar sem þjóðar um hver við erum og þegar fram líða stundir vottorð til umheimsins um það hver við vorum. Þannig munu Þjórsárver verða bautasteinn um heiður okkar eða háðung og varðveita svarið við hinni eilífu spurningu: að vera eða vera ekki.“

Hæstv. forseti. Ég tel að það séu blikur á lofti hvað varðar Þjórsá alla. Ég tel að það sé orðið tímabært að við verndum Þjórsá það sem ekki er enn virkjað af henni og legg til að þessi tillaga verði samþykkt en að lokinni fyrri umræðu verði henni vísað til umhverfisnefndar og síðari umræðu.