135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegur er ein helsta atvinnugreinin á landsbyggðinni og þekkt er að miklar breytingar verða í atvinnu- og íbúaþróun í kjölfar þess að minna er veitt og unnið, svo sem þegar kvóti flyst burt frá byggðarlaginu. 30% samdráttur í þorskafla hefur sömu áhrif og kvótaflutningur en meiri þó að því leyti til að minnkunin mun væntanlega koma fram miklu víðar í sjávarbyggðum landsins. Minni afli og vinnsla þýðir einfaldlega fækkun starfa og því fylgir fólksfækkun. Skýr dæmi um þetta má víða finna en e.t.v. eru skýrustu dæmin á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bendir á í nýútkominni skýrslu um áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga að fólksfækkunin hafi verið mest í aldurshópnum 40 ára og yngri og þess má vænta að svo verði einnig nú vegna þeirra áhrifa sem verða vegna samdráttar í þorskveiðum á næstu árum. Vellaunuðum störfum í útgerð mun fækka og líklega munu meðaltekjur viðkomandi byggðarlaga lækka. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metur áhrif samdráttarins um 12 milljarða kr. á þremur árum í minnkun vergra þáttatekna á landsvæðinu utan höfuðborgarsvæðisins.

Á síðustu tíu árum hefur orðið mikil fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu, um 27 þúsund manns á árunum 1997–2006, en veruleg fækkun á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra, um 1.200 manns á hvoru svæði á þessu árabili, nánast kyrrstaða á Norðurlandi eystra en fjölgun á þeim svæðum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu.

Á þessum tíma hafa líka orðið verulegar breytingar á meðaltekjum eftir landsvæðum í þá veru að meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu hafa vaxið meira en á landsbyggðinni og sundur dregið með svæðunum. Nú eru meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu 18% hærri en á landsbyggðinni. Meðaltekjur eru 27% hærri á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurlandi og Norðurlandi vestra, 22% hærri en á Vestfjörðum og 17% hærri en á Norðurlandi eystra. Munurinn hefur vaxið úr því að vera 11% árið 1998 í 22% á Vestfjörðum. Á Suðurnesjum hefur munurinn vaxið enn meira, áður var munurinn aðeins 1% en er núna orðinn 14%.

Virðulegi forseti. Ég vil því í ljósi þeirrar ákvörðunar sem tekin hefur verið um að draga úr þorskveiðum á næstu árum leyfa mér að leggja fyrir hæstv. iðnaðarráðherra tvær spurningar sem er finna á þskj. 214.