135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þær spurningar sem hv. þingmaður varpar til mín jafngilda því í rauninni að hv. þingmaður vilji fá léða hjá mér kristalskúlu til að skyggnast inn í framtíðina. Slíkur spámaður er ég einfaldlega ekki.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er langlíklegast, eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem hann vísaði til, að hin mikla þorskaflaskerðing komi harðast niður á þeim byggðarlögum sem eru háðastar sjávarútvegi. Hins vegar er ekki hægt að slá neinu föstu um það hvernig þróun verður í einstökum byggðarlögum af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi bendi ég á að þegar Byggðastofnun, sú stofnun sem hv. þingmaður veitti forstöðu fyrir nokkrum árum, gerði á því úttekt í september hvernig útgerðarmenn og þeir sem reka fiskvinnslu telja að þróunin verði, þá töldu þeir allsendis óvíst að hægt væri að spá um það þrjú ár fram í tímann.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin gripið til mótvægisaðgerða sem kosta 6,5 milljarða og munu líklega að sögn fjármálaráðuneytisins skapa 500–600 störf.

Í þriðja lagi bendi ég á að í mótvægisaðgerðunum er að finna margvíslegar úrbætur að því er menntun varðar en hv. þingmaður hefur sjálfur margoft bent á það í þessum sal að aukið framboð á menntun auki rótfestu í héraði og þar með dragi úr fólksfækkun.

Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin verið önnum kafin við að treysta grunngerðina á landsbyggðinni, bæði með því að bæta samgöngur, með því að taka ákvörðun um að bjóða út háhraðatengingar þar sem þær eru ekki og með því að bæta og auka samkeppni í ljósleiðarakerfinu. Þetta er allt saman aukinn og traustari grundvöllur fyrir hugmyndir manna sem vilja reyna að búa til ný störf. Þetta hefur allt saman áhrif. Á þessu stigi er því ekki hægt að halda neinu fram, eða ég treysti mér a.m.k. ekki til þess, hvernig íbúaþróunin muni verða. Hugsanlega má þó lesa vísbendingu um þessa þróun úr þeim tölum sem hv. þingmaður vísaði m.a. til áðan varðandi fólksfjöldaþróun á landsbyggðinni. Það kemur í ljós að á Austurlandi hefur fólki fjölgað um 22%, um 12% á Suðurlandi, 8% á Vesturlandi og 2% á Norðurlandi eystra. Hins vegar hefur samdráttur í hefðbundnum atvinnugreinum leitt til þess að það hefur fækkað á Vestfjörðum um 14% og 10% á Norðurlandi vestra.

Í hnotskurn er svar mitt við fyrri spurningu þingmannsins þetta: Ég er bjartsýnn á að íbúum haldi áfram að fjölga á Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi og ég tel allgóðar líkur á að í sömu átt halli á Norðausturlandi, ekki síst ef ráðist verður í stórframkvæmdir í þeim landshluta. Ég vona líka að undir lok þorskaflaskerðingarinnar hægi á núverandi íbúaþróun á Vestfjörðum, m.a. vegna aðgerða Vestfjarðanefndar. Ég tel að það þurfi svipaðar aðgerðir á Norðurlandi vestra og menn gripu til á Vestfjörðum til þess að geta hægt á þróun þar og að lokum snúið henni við.

Hv. þingmaður spyr líka um áhrifin á meðaltekjur. Ég kannast ekki alveg við þær tölur sem hv. þingmaður fór með áðan um það hvernig þróunin hefur verið. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, þ.e. meðalatvinnutekjur sem reiknaðar eru sem summa árstekna í aðalstarfi í hverri atvinnugrein deilt með meðalfjölda starfa, þá voru hæstu meðaltekjur í aðalstarfi árið 2005 á höfuðborgarsvæðinu rífar 3 milljónir og lægstar á Norðurlandi vestra og Suðurlandi eða tæpar 2,5. Eins og ég sagði, og hv. þingmaður er mér sammála um, er líklegast að í þeim sveitarfélögum sem eru háðust sjávarútvegi verði afleiðingarnar erfiðastar. Við skulum ekki gleyma því að 53 þúsund íbúa landsins, 17%, búa í byggðarlögum þar sem 10% af landsframleiðslunni, ef svo má segja, koma frá þessum atvinnugreinum. Ég leitaði upplýsinga hjá Byggðastofnun, sem hv. þingmaður veitti stjórnarformennsku fyrr á árum, og hún treysti sér ekki til að spá nákvæmlega fyrir um það hvernig þorskaflaskerðingin muni hafa áhrif á meðaltekjur einstakra landshluta. Ég hef ekki gögnin og þótt ég sé spámannlega vaxinn hef ég ekki getuna til að geta lagt þetta fyrir hv. þingmann. Ég get sagt honum mitt almenna mat. Ég held að þar sem hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er langlægst á höfuðborgarsvæðinu sé ljóst að áhrif á meðaltekjur þar verða mun minni en á landsbyggðinni og af því dreg ég þá einföldu ályktun að á meðan þorskaflaskerðingin varir dragi heldur sundur með höfuðborgarsvæðinu og þeim landshlutum sem eru háðastir sjávarútvegi og höfðu minnstar meðaltekjur árið 2005.