135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fullorðinsfræðsla.

223. mál
[18:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fylgja úr hlaði fyrirspurn um fullorðinsfræðslu og hvort til standi að setja nýja löggjöf um fullorðinsfræðslu á þessu þingi og hvar vinna við slíka löggjöf er á vegi stödd.

Sem stendur gildir engin heildstæð löggjöf hér á landi um fullorðinsfræðslu. Það hefur lengi verið mjög óljóst hver ábyrgð hins opinbera á að vera gagnvart fullorðinsfræðslu. Það má segja að hún hafi staðið fyrir utan hið formlega skólakerfi og að sumu leyti verið grasrótarstarf. Sem dæmi má nefna að af þeim tæplega 100 milljörðum kr. sem renna af opinberu fé til menntunar í landinu er um 1–2% af þeim fjármunum varið til fullorðinsfræðslu.

Sú skoðun hefur lengi verið við lýði að það sé hlutverk atvinnulífsins að sjá um þennan þátt menntakerfisins enda hefur það staðið sig mjög vel á mörgum sviðum. Þar nægir að nefna Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og öflugt starf Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar á þessu sviði. Ég hef þó orðið vör við þá umræðu í samfélaginu að menn telji æskilegt að fá ramma um fullorðinsfræðsluna, sem er mjög margþætt hugtak og felur í sér mjög ólík markmið. Menn nota ólík hugtök innan þessa geira, svo sem endurmenntun, sem snýst um ákveðna endursköpun innan ákveðins starfs og símenntunarhugtakið verður æ sterkara í umræðu um menntamál en snýst um, svo einfalt sem það er, að svo lengi lærir sem lifir.

Rökin fyrir fullorðinsfræðslu eru margslungin rétt eins og rök fyrir menntun almennt. Ég vil kannski nefna fernt og vísa þá til rannsókna Jóns Torfa Jónassonar prófessors á fullorðinsfræðslu. Þar koma til mannauðsrök, að fræðslan styrki stöðu fólks á vinnumarkaði og geri það betra innan síns geira. Lýðræðisrökin, þ.e. að það er nauðsynlegt að efla undirstöðuþekkingu fólks í jafnhreyfanlegu samfélagi og við búum í til að það sé virkir þátttakendur í samfélaginu. Jafnræðisrökin; þeir sem ekki ná að ljúka formlegri menntun innan formlega kerfisins fá annað tækifæri síðar á lífsleiðinni og þar með til að auka lífsgæði sín sem og lífskjör samfélagsins. Þá má í fjórða lagi benda á almenn tæknirök sem snúast um að fólk geti sótt sér menntun til að breyta til á vinnumarkaði, færa sig á milli starfa, skipta um vettvang.

Þessi rök tel ég að mæla með því að hið opinbera taki á sig aukna ábyrgð á fullorðinsfræðslu, að sjálfsögðu í samstarfi við alla þá sem hafa axlað mikla ábyrgð í þessum efnum hingað til, verkalýðsfélög, vinnuveitendur og fleiri. Við þekkjum hins vegar þá staðreynd að brottfall úr hinu formlega skólakerfi hefur verið tiltölulega mikið hérlendis miðað við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Það skiptir miklu máli að það fólk eigi afturkvæmt inn á menntaveginn. Spurningin er því: Stendur til að setja ramma um fullorðinsfræðsluna og hvar er sú vinna á vegi stödd?