135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:03]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (frh.):

Hæstv. forseti. Þar var komið sögu í ítarlegri greinargerð með breytingartillögum meiri hluta við fjárlagafrumvarp ársins 2008 að ég var að gera þingheimi grein fyrir tillögu meiri hluta undir liðnum Sjávarútvegsráðuneyti. Ég ætla að staldra við lið 05-190-198 Ýmis framlög sjávarútvegsráðuneytisins, 80 millj. kr. tímabundið framlag til fjögurra verkefna.

Í fyrsta lagi 20 millj. kr. framlag til rannsókna á eldi sjávardýra á Patreksfirði, í öðru lagi 20 millj. kr. til sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd, í þriðja lagi 20 millj. kr. framlag til sjávarrannsóknarseturs í Ólafsvík og loks í fjórða lagi 20 millj. kr. í samvinnuverkefni Versins á Sauðárkróki, Matíss og háskólans á Hólum um frekari uppbyggingar á líftækni- og fiskeldisaðstöðu á Sauðárkróki.

Undir Hafrannsóknastofnuninni er um að ræða töluverða hækkun, alls 102,2 millj. kr. Í fyrsta lagi er lögð til 51 millj. kr. tímabundin fjárveiting til athugana á umhverfi og lífríki fyrirhugaðs olíuleitarsvæðis á Drekasvæði á Jan Mayen-hrygg. Þá er lagt til 50 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til svonefnds togararalls sem gegnir mikilvægu hlutverki við mat á ástandi þorskstofnsins og styrkleika uppvaxandi árganga. Það er sömuleiðis gert ráð fyrir sömu fjárhæð í frumvarpi til fjáraukalaga til þessa verkefnis.

Loks eru smærri framlög til Hafrannsóknastofnunar sem ég hirði ekki um að nefna nema ég nefni sérstaklega 22 millj. kr. tímabundið framlag til Húsnæðismálastofnunar sem tengist flutningi hennar á milli hæða að Skúlagötu 4.

Gert er ráð fyrir 30 millj. kr. tímabundinni lækkun á fjárveitingu til Fiskistofu og að hún gangi á höfuðstól sinn.

Undir liðnum Dóms- og kirkjumálaráðuneyti vil ég nefna sérstaklega framlög undir liðnum 06-190-145 Mannréttindamál. Þar er gerð tillaga um 10 millj. kr. framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands og undir 147 Íslensk ættleiðing, undir sama lið, 3 millj. kr. tímabundið framlag til Íslenskrar ættleiðingar.

Það er hins vegar Landhelgisgæsla Íslands sem tekur stóru fjárhæðina í þessum tillögum sem felast í því að við gerum tillögu um að fjárheimildir Landhelgisgæslunnar hækki um 94,3 millj. en sú tillaga byggir á úttekt dómsmálaráðuneytis og Landhelgisgæslu á helstu kostnaðarþáttum í þyrlurekstri stofnunarinnar.

Gerð er tillaga um 1,5 millj. kr. framlags til uppbyggingar á varðstöð lögreglustöðvarinnar í Vík í Mýrdal og undir þennan lið, Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, færist 3 millj. kr. tillaga um tímabundið framlag til byggingar þjónustuhúss við Þingeyraklausturskirkju.

Undir liðnum Félagsmálaráðuneyti er gerð tillaga um 20 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Jafnréttisstofu með vísan til frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem bíður afgreiðslu Alþingis, en eins og þingmönnum er kunnugt er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsemi Jafnréttisstofu verði efld.

Gerð er 3 millj. kr. tillaga um tímabundið framlag til vinnustaðar aldraðra, öryrkja og fatlaðra á Vopnafirði sem ber heitið Jónsver.

Gerð er tillaga um 75 millj. kr. tímabundið framlag til að mæta verkefnastöðu í stofnframkvæmdum Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Undir Vinnumálastofnun er 45 millj. kr. tímabundið framlag til að efla vinnumarkaðsúrræði og sömuleiðis er þetta verkefni með 15 millj. kr. framlagi í frumvarpi til fjáraukalaga þannig að í þetta mál er ráðgert að verja 60 millj. kr. á næsta ári. Verkefnið er hluti af mótvægisaðgerðunum sem hér hafa áður komið til umræðu.

Gert er ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður fái 140 millj. kr. tímabundið framlag til að auka svigrúm fiskvinnslufyrirtækja til að halda starfsfólki á launaskrá þrátt fyrir minnkandi þorskveiðar. Í samráði við Samtök fiskvinnslustöðva hefur verið ákveðið að leggja til við Alþingi að breyta lögum um hámark greiðsludaga til fyrra horfs þannig að þeir verði 60 í stað 45 og lengsta samfellda lota geti því orðið 30 dagar í stað 20. Samtals er gert ráð fyrir 217 millj. kr. fjárveitingu á fjárlögum 2007 og fjárlögum 2008 vegna þessa.

Undir liðnum Atvinnuleysistryggingasjóður er einnig færð tillaga um 25 millj. kr. tímabundið framlag í sérstakt átak til að styrkja atvinnumál kvenna. Styrkveitingar til atvinnumála kvenna hafa í mörgum tilfellum gert konum kleift að skapa nýja atvinnustarfsemi og draga um leið úr atvinnuleysi meðal þeirra. Gert er ráð fyrir að veitt verði aukið fjármagn til verkefnisins í gegnum Vinnumálastofnun bæði á fjáraukalögum 2007 og fjárlögum 2008, samtals 40 millj. kr.

Gerð er tillaga um að styrkja Fæðingarorlofssjóð um 440 millj. kr. Áætluð útgjöld ársins 2008 hafa verið endurskoðuð í ljósi þróunar útgjalda það sem af er þessu ári. Ég tel það sjálfur tímabært og vil leggja það inn við þessa umræðu að það sé orðið tímabært að leggja mat á reynsluna af þessum sjóði miðað við þær væntingar sem menn höfðu þegar lagt var upp með þetta verkefni.

Undir liðnum Félagsmál, ýmis starfsemi er tillaga um 4 millj. kr. hækkun á framlagi til Geysis, vinnumiðlunar fyrir geðfatlaða, og sömuleiðis 2 millj. kr. framlag til rekstrar mötuneytis á vegum Geðhjálpar. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun á framlagi til klúbbsins Stróks sem er félagsskapur fyrir fólk sem á eða hefur átt við geðræn vandamál að stríða.

Gerð er tillaga er um 6 millj. kr. hækkun á framlagi til Samtaka um kvennaathvarf í Reykjavík.

Gerð er tillaga um 16 millj. kr. framlag til hækkunar á þjónustu við blinda og sjónskerta. Samtals er gert ráð fyrir 72 millj. kr. til bráðaaðgerða til að bæta þjónustu við blinda og sjónskerta. Þar af eru 20 millj. kr. í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007. Þessar fjárhæðir skiptast á félagsmálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.

Loks vil ég nefna þrjár tillögur sem koma til vegna tillagna ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir. Fyrst vil ég nefna Fjölmenningarsetur á Ísafirði sem gerð er tillaga um að hljóti 26 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til þess að ráða í stöður upplýsingafulltrúa, túlka og þjónustufulltrúa. Gert er ráð fyrir framlagi upp á 6,5 millj. í þessu viðfangi á fjáraukalögum þannig að gera má ráð fyrir að á fjárlagaárinu 2008 verði varið 58,5 millj. til þessa verkefnis.

Undir þennan lið eru einnig færðar 250 millj. undir lið sem heitir Til sveitarfélaga sem verða fyrir aflasamdrætti. Hér er um að ræða tímabundið framlag í tvö ár til að koma til móts við þau sveitarfélög sem verða fyrir tekjumissi vegna tímabundins samdráttar í þorskveiðum. Gert er ráð fyrir jafnháu framlagi í fjáraukalagafrumvarpi fyrir 2007 þannig að fyrirhugað er að alls verði veittar 750 millj. kr. til að koma til móts við lækkandi tekjur sveitarfélaga af þessum sökum. Ráðstöfun þessa fjár verður ákveðin í samráði við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Undir Ýmis framlög er gert ráð fyrir 10,5 millj. kr. tímabundinni hækkun á þessum lið. Verður heildarupphæð til styrkja í þessu viðfangi því upp á 88 millj. kr. Undir ráðuneytið eru síðan færðar 70 millj. þannig að á vegum þess eru alls rétt tæpar 160 millj. kr.

Varðandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vil ég nefna sérstaklega Sjúkrahúsið á Akureyri sem hér er gerð tillaga um að fái 50 millj. kr. fjárveitingu til að styrkja núverandi starfsemi þess og gera því kleift að taka við auknum verkefnum. Þessi fjárveiting kemur til viðbótar 82 millj. kr. hækkun á rekstrargrunni í frumvarpinu og sömuleiðis 206 millj. kr. tillögu um fjárveitingu í fjáraukalagafrumvarpinu. Þetta er sambærileg aðgerð og gripið hefur verið til varðandi Landspítalann. Með þessum fjárveitingum er áætlað að greiðslustaða þessara sjúkrahúsa verði í jafnvægi og þær eiga að gera stjórnendum þeirra kleift að reka stofnanirnar innan fjárheimilda.

Varðandi Landspítann vil ég geta þess að gert er ráð fyrir að fjárframlög í breytingartillögum meiri hlutans sem hér liggur fyrir ásamt framlögum í fjáraukalögunum og því frumvarpi sem hér liggur fyrir séu um 2,8 milljarðar kr. til þessa verkefnis alls

Ég vil koma einni leiðréttingu á framfæri við lið 08-376-621 sem er Bygging hátæknisjúkrahúss á lóð Landspítalans. Í nefndarálitinu er skekkja í texta. Þar er lögð til 700 millj. kr. tímabundin lækkun á þessu framlagi og í stað milljarðs sem áætlaður er í framlag til byggingar á árinu 2008 á að koma talan 800 millj. kr.

Undir liðnum Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa er gerð tillaga um 9,8 millj. kr. framlag sem ætlað er til þess að styðja aðgerðaráætlun vegna ofbeldis á heimilum og vegna kynferðisofbeldis.

Undir liðnum Lyfjastofnun er gerð tillaga um lækkun á gjöldum og sértekjum stofnunarinnar upp á 20,7 millj. kr. og þar er gert ráð fyrir að þessi tillaga gangi síðar til baka.

Undir liðnum Heilbrigðismál, ýmis starfsemi vil ég nefna sérstaklega þrjú atriði, aukið framlag upp á 5 millj. kr. til SÍBS, 2 millj. kr. hækkun á framlagi til Hjartaheilla og 10 millj. kr. hækkun á framlagi til Krýsuvíkursamtakanna vegna meðferðarheimilisins í Krýsuvík.

Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til viðbyggingar við húsnæði MS-félagsins á Íslandi. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. fjárveitingu í stöðugildi sálfræðings á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og enn fremur vil ég nefna aðrar heilbrigðisstofnanir sem fá sömu tillögur um aðgerðir rekstri sínum og LSH og Sjúkrahúsið á Akureyri en það eru Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnunin Akranesi, Heilbrigðisstofnunin Blönduósi. Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum fá líka breytingar sem nánar eru skýrðar út í nefndarálitinu. Ef ég nefni þetta í upphæðum er 160 millj. kr. tímabundin fjárveiting í Heilbrigðisstofnun Suðurlands til að flýta framkvæmdum við viðbyggingu þar, Heilbrigðisstofnunin Akranesi fær 59 millj. kr. fjárveitingu til að styrkja reksturinn og 116 millj. kr. tillaga er í frumvarpi til fjáraukalaga.

Ég vil nefna Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sérstaklega í þessu sambandi. Fjárlaganefndin heimsótti það svæði í haust, skoðaði þá stofnun ágætlega og fékk greinargott yfirlit frá stjórnendum og starfsfólki um þau þörfu verk sem þar eru unnin. Gert er ráð fyrir verulegri styrkingu á starfseminni, bæði í fjárveitingu til að rétta af halla en jafnframt á að gera stofnuninni kleift að takast á við ný verkefni með því að styrkja starfsemina þar. Loks er í þessari spyrðu, ef svo mætti kalla, talinn upp St. Jósefsspítali, Sólvangur. Gerð er tillaga um 179 millj. kr. fjárveitingu til að styrkja núverandi rekstur sjúkrahússins og gera því kleift að taka við auknum verkefnum og í frumvarpi til fjáraukalaga er tillaga um 306 millj. kr. fjárveitingu til að laga greiðslustöðu sjúkrahússins.

Ég vil ítreka það við þessa umræðu, varðandi þá fjármuni sem verið er að leggja í rekstur þeirra heilbrigðisstofnana sem hér hafa verið upp taldar, að það er ósk og raunar krafa fjárlaganefndar að þannig verði unnið með mál að þessar stofnanir reki sig innan þeirra fjárheimilda sem markaðar verða í fjárlögum ársins 2008. Það er eðlilegt og sjálfsagt að gera þá kröfu til þeirrar starfsemi sem þar fer fram að svo verði eftir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til.

Undir fjármálaráðuneytinu eru gerðar allnokkrar tillögur varðandi jöfnun á örorkubyrði á almennum lífeyrissjóðum, áætlað er að verja 100 millj. kr. í tímabundna fjárveitingu til eins árs. Lögð er til 223 millj. kr. útgjaldaheimild til Fasteignamats ríkisins og er það í samræmi við tillögur starfshóps sem fjármálaráðherra skipaði á árinu um málefni stofnunarinnar. Ég vil einnig nefna að varðandi Landskrá fasteigna er ráðgert að stofnkostnaður, sem þar var áður færður inn upp á 100 millj. kr., falli niður og framlagið eða fjárheimildin færist þess í stað undir hefðbundinn rekstur. Gerð er tillaga um 110 millj. kr. tímabundna lækkun á liðnum Tapaðar kröfur og tjónabætur. Loks vil ég nefna undir þessari upptalningu liðinn 981-525, sem eru ýmsar fasteignir ríkissjóðs, viðhald fasteigna á svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti. Lagt er til að veitt verði 333 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til framkvæmda við endurbætur og viðhald fasteigna og mannvirkja í eigu ríkisins, bæði á vegum Fasteigna ríkissjóðs og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Nánari ákvörðun um tilhögun verkefnisins verður tekin af fjármálaráðherra á tímabilinu og verður sérstaklega litið til þeirra sveitarfélaga og svæða þar sem í ljós kemur að aflasamdráttur leiðir til fækkunar starfa. Gert er ráð fyrir jafnháu framlagi í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007 þannig að áformað er að verja allt að 1 milljarði kr. til þessara framkvæmda.

Undir liðnum Launa- og verðlagsmál er gerð tillaga um 200 millj. kr. tímabundna lækkun á þeirri forsendu að varasjóður á móti óskiptum liðum falli niður. Undir lið 993-101, undir fjármálaráðuneytinu, eru ráðstafanir vegna samdráttar á heimiluðum þorskafla. Þar hefur verið gert ráð fyrir samtals 1.775 millj. kr. fjárheimild til að standa straum af ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið til að efla atvinnulíf á svæðum sem verða fyrir samdrætti vegna ákvörðunar um þoskaflamark. Það skiptist gróflega í um 1.100 millj. kr. framlag, sem mætti flokka undir rekstrargjöld og tilfærslur og rúmar 670 millj. kr. vegna framlaga sem teljast til stofnkostnaðar. Lagt er til að þessi fjárheimild falli niður þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum til einstakra verkefna í þessu skyni hjá viðkomandi ráðuneytum eins og komið hefur fram í máli mínu að framan og á örugglega eftir að koma upp síðar í ræðu minni.

Undir liðnum 999 Ýmislegt eru jafnréttisfulltrúar ráðuneyta. Þar er lagt til að veittar verði 32 millj. kr. til að standa undir heildarkostnaði við fjögur stöðugildi jafnréttisfulltrúa við Stjórnarráðið og loks er gerð tillaga um 24 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til þjóðlendumála. Ég vil einnig nefna lið 994 Virðisaukaskattur af ríkisstofnanatölvuvinnslu. Þar er verið að gera ákveðnar breytingar sem leiða til 71,2 millj. kr. fjárheimildar á þessum nýja fjárlagalið.

Ýmislegt er bardúsað á vegum samgönguráðuneytisins og það er ekki undanskilið í þeim tillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir. Ég stoppa fyrst við liðinn 190-142 Ýmis verkefni. Þar er um að ræða gestastofur, söfn og markaðsstarf. Þar er gert ráð fyrir 4,2 millj. kr. tímabundinni lækkun á liðinn vegna millifærslu á aðra liði. Sundurliðun á þeim liðum sem hér er vísað til er sýnd í þskj. 339, liður 21. Undir viðfangi 191-53 Ferðaþjónusta á svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti. Þar er lagt til að veita 80 millj. kr. í tímabundið framlag í tvö ár til að styrkja ferðaþjónustu á þeim svæðum sem verst verða úti í niðurskurði þorskkvóta.

Allnokkrar breytingar eru gerðar á rekstri Vegagerðarinnar. Lagt er til að rúmlega 3,3 milljarða kr. fjárheimild verði flutt af viðfangsefninu 10-211-1.07 Þjónusta yfir á viðfangsefnið 10-212-1.11 sem hefur sama heiti. Fjármögnun útgjalda er með mörkuðum tekjum. Með mörkuðum tekjum færist það á sama hátt. Um er að ræða breytingu á framsetningu fjárveitingu til Vegagerðarinnar. Fjárveitingunum hefur verið skipt á milli tveggja fjárlagaliða og er ætlunin að greina almennan rekstur yfirstjórnar og umdæmismiðstöðva stofnunarinnar betur frá eiginlegum samgönguverkefnum. Þetta gengur einnig yfir fleiri liði sem unnt er að lesa sig í gegnum en leiða ekki til útgjalda. Það er lagt til, undir lið 10-212-1.13 Styrkir til innanlandsflugs, að 263 millj. kr. fjárheimild verði flutt af viðfangsefninu 10-211-1.13 yfir á viðfangsefnið 10-212-1.13 undir sama heiti. Hér undir er gert ráð fyrir 18 millj. kr. tímabundnu framlagi í tvö ár vegna fjölgunar flugferða til Vestmannaeyja að mestu yfir ferðamannatímann og þetta er hluti af mótvægistillögum. Undir samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi vegna framkvæmda við gerð Bakkafjöruvegar. Jafnframt, undir framkvæmdaliðnum, er gert ráð fyrir 2,5 millj. kr. tímabundinni lækkun á framkvæmdum Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir því að á næsta ári muni að jafnvirði 3,2 milljarða kr. af framkvæmdum Vegagerðarinnar ekki verða að veruleika þar sem undirbúningur er of skammt á veg kominn. Á móti verður framlag vegna tengivega aukið um 700 millj. kr. umfram samgönguáætlun. Nettólækkun á viðfanginu er því 2,5 milljarðar og verður gerð tillaga um breytingu á samgönguáætlun í samræmi við það.

Undir Siglingastofnun Íslands er lögð til 30 millj. kr. hækkun á framlagi en í kjölfar breytinga á atvinnuháttum á landsbyggðinni hefur fjölgað verulega beiðnum frá hafnarstjórnum þar sem óskað er eftir að Siglingastofnun rannsaki hafnaraðstöðu fyrir nýja hafnarstarfsemi. Fyrir liggur 27 millj. kr. tillaga um hækkun á framlögum til vakt eða siglinga. Undir liðnum Hafnarframkvæmdir vil ég sérstaklega nefna Bakkafjöruhöfn, lagt er til að 835 millj. kr. fjárheimild verði færð á viðfangsefni Bakkafjöruhafnar. Ég vil einnig nefna tollaðstöðu á Seyðisfirði. Gert er ráð fyrir 20 millj. kr. tímabundnu framlagi til Seyðisfjarðarkaupstaðar vegna framkvæmda við bílastæði við nýju ferjuhöfnina. Jafnframt er gert ráð fyrir hækkun á þessu viðfangi um 2,3 millj. kr. þar sem í frumvarpinu fórst fyrir að verðlagsreikna framlag á nýju viðfangsefni.

Gert er ráð fyrir fjárveitingu upp á 3,8 millj. kr. vegna Vestmannaeyjaferju og á flugvöllum og flugleiðsöguþjónustu eru gerðar nokkrar breytingar. Liðurinn í heild hækkar um 149 millj. kr. nettó. Í fyrsta lagi vil ég nefna að þetta viðfang er hækkað tímabundið um 456 millj. vegna flughlaðs fyrir flugvélar við fyrirhugaða samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli. Í öðru lagi hækkar þetta viðfang tímabundið um 62,3 millj. kr. vegna viðbótaraðstöðu fyrir innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli og loks vil ég nefna að í þriðja lagi er lagt til að framlög til þessa viðfangs lækki um 370 millj. kr. en við tillögugerð vegna undirbúnings frumvarpsins var sú fjárhæð oftalin. Sérstaklega ber að fagna þeim áformum sem koma fram undir þessum lið.

Á vegum iðnaðarráðuneytisins eru enn fremur allnokkrar tillögur, mjög metnaðarfullar að mínu mati, að því sem lýtur að málum til að byggja upp þekkingu og nýsköpun á landsbyggðinni. Fyrst vil ég nefna Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar er lögð til 44 millj. kr. hækkun á framlögum á liðnum, 20 millj. eru ætlaðar til framlags til brautargengis Impru sem er námskeið fyrir athafnakonur sem vilja hrinda af stað viðskiptahugmyndum. Lagt er til 12 millj. kr. tímabundið framlag til að efla Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Vestmannaeyjum. Þar er einnig 4 millj. kr. framlag áætlað í fjáraukalögum þannig að í allt má gera ráð fyrir 28 millj. kr. framlagi til þessa verkefnis á næsta ári. Loks vil ég nefna 12 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til að efla Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Höfn. Þar á hið sama við og gilti um Vestmannaeyjar og allt í allt verða þá veittar um 28 millj. kr. í þetta verkefni á næsta ári.

Tækniþróunarsjóður er efldur verulega, 20 millj. kr. hækkun á framlagi. Þá er gert ráð fyrir að fjárframlög til þessa fjárlagaliðar verði allt í allt 600 millj. kr. á árinu 2008. Þessi tillaga er í samræmi við tillögu stjórnvalda um fjárveitingar til eflingar samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækni fyrir árin 2008–2011. Það er hins vegar ljóst að við þurfum að bæta í til að ná þeim markmiðum væntanlega í fjárliðum næstu ára.

Ég vil nefna Orkustofnun sérstaklega. Þar er lagt til að veittar verði 101,4 millj. kr. í tímabundið framlag til að hefja undirbúning að útgáfu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæði á Jan Mayen-hrygg. Ríkisstjórnin samþykkti á árinu 2005 að hefja undirbúning olíuleitar á því svæði. Gríðarleg tækifæri liggja í þessu og lagt er til að þessum undirbúningi verði haldið áfram og við það miðað að menn gefi út leyfi til rannsókna og hugsanlega vinnslu olíu á svæðinu. Við það er miðað að hægt verði að bjóða út rannsóknarleyfi haustið 2008. Það er ljóst að byggja þarf upp mikla sérfræðiþekkingu á Orkustofnun og ráða starfsmenn á næstu árum til að sinna verkefnum á þessu sviði fyrir utan það að kaupa þarf ráðgjöf og búnað o.s.frv. í þessu skyni. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. iðnaðarráðherra úr þessum ræðustól að beita sér fyrir því að þessi starfsemi byggist sem mest upp við Orkustofnun og útibú hennar við Háskólann á Akureyri og efla þar með vísindastörf á þessu sviði á landsbyggðinni.

Undir Ýmsum orkumálum er gert ráð fyrir að verja 50 millj. kr. tímabundnu framlagi í tvö ár til jarðhitaleitar víða um land, meðal annars á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi og Austfjörðum. Inni í fjáraukalagafrumvarpinu er 50 millj. kr. áætlað framlag í þetta þannig að samtals fara um 100 millj. kr. til þessa verkefnis á næsta ári.

Í liðnum Byggðaáætlun eru tvö viðfangsefni sérstaklega tilgreind. Það eru 30 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til vaxtarsamninga á Norðurlandi vestra og eystra og gert er ráð fyrir því að þessir samningar verði virkir árin 2007–2009 þannig að hér er um að ræða 90 millj. kr. samning á hvoru svæði fyrir sig.

Á vegum viðskiptaráðuneytisins er gert ráð fyrir að efla Samkeppniseftirlitið með 25 millj. kr. fjárheimild. Sömuleiðis eru gerðar tillögur um breytingar á flutningssjóði olíuvara. Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir því að framlag til flutningssjóðs olíuvara félli niður en nú er lagt til hér í þessum tillögum að framlagið verði áfram og gert ráð fyrir 300 millj. kr. fjárheimild til sjóðsins tímabundið á árinu 2008. Það hefur verið ákveðið að leggja sjóðinn niður frá og með 1. september á næsta ári í stað 1. janúar eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Sjóðurinn er fjármagnaður með flutningsjöfnunargjaldi sem lagt er á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins. Þessi frestun hefur því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs þótt bæði útgjöld og tekjur verði hærri. Fyrirhugað er að vinna áfram að athugunum á ýmsum þáttum sem snúa að jöfnun kostnaðar á vöruflutningum svo sem viðskiptaráðherra hefur tilkynnt.

Ég vil einnig nefna hér sérstakt viðfangsefni sem er 12-831-1.10 og ber heitið Jöfnun kostnaðar við vöruflutninga til Vestfjarða. Á þessum lið er inni í frumvarpinu 150 millj. kr. tillaga að fjárveitingu. Hér er lagt til að heiti þessa liðar breytist og hann beri heitið Jöfnun kostnaðar við vöruflutninga og hugsunin í þessu efni er sú að þessi fjárveiting verði nýtt til þess að gera allsherjarúttekt og tillögur að jöfnun á kostnaði við vöruflutninga um allt land en ekki á einu tilteknu litlu landsvæði sem hér var áður inni í frumvarpi.

Á vegum umhverfisráðuneytisins vil ég nefna loks nokkur verkefni. Það eru í fyrsta lagi Ýmis verkefni sem eru á styrkjalið. Þar er gerð tillaga um 6,5 millj. kr. tímabundna hækkun og sundurliðun þessa liðar er að finna á þskj. 339. Ég vil nefna að á vegum umhverfisráðuneytisins, undir þess forsvari, er starfrækt stofnun sem ber heitið Umhverfisstofnun. Þar er gerð tillaga um þjóðgarða og friðlýst svæði. Þetta lýtur að þjóðgarðinum á Snæfellsnesi. Það er lögð til 50 millj. kr. tímabundin fjárveiting hér til fjögurra ára í að byggja gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi. Það liggur fyrir hönnun og er áætlaður kostnaður við bygginguna um 200 millj. kr. og það hefur verið stefnt að því að opna þessa gestastofu á tíu ára afmæli þjóðgarðsins í maí árið 2011. (GÁ: Ætli þið svíkið það ekki.) Ég hef enga trú á því að ... (Gripið fram í.) að þetta loforð verði svikið því að ég hef fulla trú á því að umhverfisráðherra muni af lífi og sál, eins og ævisöguritarinn frá Brúnastöðum tekur til orða, helga sig þessu verkefni og því treysti ég því fullkomlega að gestastofan verði opnuð í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi á tíu ára afmæli hans í maí 2011. Ég legg traust mitt á það og vænti öflugs stuðnings hv. þm. Guðna Ágústssonar við það verkefni, (Gripið fram í: Af lífi og sál.) af lífi og sál.

Það er gerð tillaga um 100 millj. kr. tímabundna lækkun á framlögum til ofanflóðasjóðs og gert ráð fyrir því að hann gangi á eigið fé.

Varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands er gert ráð fyrir því að niður falli tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag vegna húsbúnaðarkaupa og kostnað við flutning í húsnæðið og 50 millj. kr. fjárveitingu til leigu þar sem útséð er um að nýtt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun verði tilbúið fyrr en árið 2009.

Ég vil enn fremur nefna stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Þar er lagt til 4 millj. kr. tímabundið framlag til að mæta auknu rekstrarumfangi hjá stofnuninni.

Loks hér í þessum lið ræðu minnar vil ég nefna náttúrustofur. Þar er gerð tillaga um að sérhver af eftirfarandi náttúrustofum fái 8 millj. kr. tímabundið framlag til rannsóknarverkefna, það er í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Sauðárkróki, Sandgerði og Húsavík. Fjárlaganefndin fór ítarlega yfir náttúrustofurnar og í lögum er heimild til þess að starfrækja átta náttúrustofur. Það eru sjö með framlag. Í undirbúningi er ein náttúrustofa sem ekki er komin á fjárlög en fjárlaganefndin stóð í þeirri meiningu að náttúrustofan í Bolungarvík væri búin að fá 8 millj. kr. viðbótina, en fjárlaganefndarmenn hafa fengið fregnir af því að líkast til geti verið um ákveðinn misskilning í því efni að ræða í þá veru að fjárveitingar til náttúrustofunnar í Bolungarvík hafi verið skornar niður milli ... (Gripið fram í: Er það nú rétt?) Fyrirgefðu, hv. þingmaður. Þær fregnir og sú umræða hefur verið borin fjárlaganefndarmönnum og meðal annars birt í vefritinu hjá Bæjarins besta sem (JBjarn: Það er tillaga komin fram ...) rekið er á Ísafirði og er afspyrnu öflugur miðill. Ef um er að ræða einhvern misskilning í þessum efnum vænti ég þess að hann verði leiðréttur milli umræðna því að vilji fjárlaganefndar stendur ekki til þess að skerða framlög til náttúrustofa. Það er svo langur vegur frá. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um breytingartillögur fjárlaganefndar á þskj. 339 við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008. Hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson gerði í framsöguræðu sinni grein fyrir tillögu nefndarinnar við 5. gr. fjárlagafrumvarpsins og þá er eingöngu eftir að leggja fram breytingartillögur nefndarinnar við 6. gr. frumvarpsins svo sem þær birtast á þskj. 343. Þar eru gerðar tillögur um að ákveðnar heimildir falli brott og aðrar bætist við. Þetta eru allnokkrar færslur. Þetta er í tíu liðum, með leyfi forseta:

„1. Við 6. gr. Liðir 2.1–2.2 og 2.4–2.7 falli brott.“

Ég geri ráð fyrir því að þingmenn muni bera þetta saman við heimildargreinina eins og hún birtist í frumvarpinu til fjárlaga eins og hún er birt á bls. 51–55 í þeim gögnum sem til þingmanna hefur verið dreift fyrir allnokkru síðan.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lagt fram allar þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. um fjárlagafrumvarp ársins 2008. Í umræðu um fjárlagafrumvarp það sem hér liggur fyrir og einnig fjárlög síðustu ára hefur borið nokkuð á þeim röddum sem telja fjárlögin hafa fremur ýtt undir þenslu í þjóðfélaginu en sporna gegn henni. Nokkuð er til í þessari gagnrýni að mínu mati en hægt er að nálgast umræðuna á mismunandi vegu. Líta má til þess hvernig efnahagur og almenn lífsskilyrði eru í landinu sem heild og engum getur blandast hugur um að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem bjóða íbúum sínum hvað best skilyrði til búsetu. Hins vegar má nálgast þessa umræðu með því að leggja mat á afkomu og lífsskilyrði Íslendinga með tilliti til búsetusvæða. Öllum ber saman um að á landsvæðinu við Faxaflóa og næsta nágrenni eru mikil umsvif á flestum sviðum og uppbygging hröð. Á þessu landsvæði hefur verið mörg undanfarin ár mikill hagvöxtur og á sama tíma hefur við fjárlagagerð umtalsverðum fjárhæðum verið varið til viðbóta í rekstri og fjárfestingu hins opinbera hér á þessu svæði. Þær raddir hafa verið nokkuð áberandi í umræðu undanfarinna ára að orsök þeirrar þenslu sem á þessu svæði hefur staðið nú í mörg ár liggi í stóriðjuframkvæmdum austur á Reyðarfirði. Það er ekki rétt. Því síður er það rétt sem (Gripið fram í.) nú síðast hefur verið reynt að koma inn í umræðuna, að þeir sem beri ábyrgð á verðbólgunni þessi missirin sé fólk utan af landi sem sé að flytja hingað á höfuðborgarsvæðið. Fyrir liggur að hagvöxtur í landinu hefur á síðustu árum einskorðast við tiltölulega fá svæði á landinu. Ef fyrir hendi eru fjölbreyttir atvinnuhættir, mikið framboð á sviði menntunar, menningar, verslunar og þjónustu dregst fólk að sjálfsögðu að slíkum stöðum. Það er því miður ekki veruleikinn víða um land og því miður mun fremur herða að ef eitthvað er mjög víða í kjölfar ákvörðunar um skerðingu aflamarks í þorskveiðinni. Í sjálfu sér er það ekkert nýtt að sjávarútvegurinn gangi í sveiflum, en allar aðstæður og viðhorf, sérstaklega yngra fólks í dag, hafa gerbreyst á tiltölulega fáum árum.

Með fjárlögum hvers árs er lagður grunnur að starfsemi ríkisins. Í þessu frumvarpi til fjárlaga má gera ráð fyrir að til verði á vegum ríkisins um það bil 250 ný störf. Samkvæmt grófri yfirferð minni má gera ráð fyrir því að um það bil 50–60 þeirra verði til á Vestfjörðum í tengslum við mótvægisaðgerðir og tillögur Vestfjarðanefndar og það er gleðilegt.

Á undanförnum árum hefur vinnumarkaður höfuðborgarsvæðisins notið þessa vaxtar sem í fjárlögunum felst því sem næst einn. Þessi vöxtur hefur verið næsta ósjálfráður og af mörgum talinn sjálfsagður. En ef þessi viðbót við vinnumarkað landsins á að eiga sér stað einhvers staðar annars staðar en hér á hagvaxtarsvæðinu kostar það oftar en ekki, oftar en æskilegt er blóð, svita og tár til að koma slíkum breytingum fram og þá eru engin skil á milli flokka í þeim efnum.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2008 er ánægjuleg breyting á ferðinni í þessum efnum. Ríkisstjórnin hefur gripið til sérstakra ákvarðana til að bæta úr því verklagi sem viðgengist hefur og hefur lagt til að Alþingi beini fyrst af öllu sjónum sínum sérstaklega að ákveðnum svæðum til styrkingar byggð í landinu. Þar er um að ræða tillögur varðandi Vestfirðina á grunni svokallaðrar Vestfjarðanefndar auk hinna margumræddu mótvægisaðgerða sem kynntar voru í haust.

Vissulega má hafa margvíslega skoðanir á þessum atriðum. Í fyrsta lagi þykja þessar aðgerðir geta ýtt undir áframhaldandi þenslu í þjóðfélaginu. Því vil ég svara á þann veg að á þessum svæðum er slíku ástandi ekki fyrir að fara, þvert á móti beinast þessar aðgerðir að þeim svæðum landsins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og byggðin liggur undir áföllum.

Í öðru lagi er því haldið fram og gagnrýnt hversu skammt þessar aðgerðir gangi, þær þyrftu að vera miklu meiri og taka til fleiri svæða. Vissulega er búseta á öðrum svæðum landsins í vörn og þar vil ég sérstaklega nefna austurhluta Húnavatnssýslna og Skagafjörð, utanverðan Eyjafjörð, Þingeyjarsýslur og jaðarsvæði á Austurlandi og Suðurlandi. Ég kýs að líta svo á að aðgerðir til aðstoðar byggð á Vestfjörðum sé virðingarverð viðleitni sem beri að fagna og hún er hugsuð til þess að sporna gegn óæskilegri þróun byggðar í landinu og það ber að þakka. Hins vegar lít ég svo á að þetta verkefni sé rétt að hefjast og að óhjákvæmilegt sé að vinna tillögur og koma til framkvæmda verkefnum sem muni styrkja búsetu á öðrum svæðum landsins. Það er í mínum huga grundvallaratriði að til þess að okkur miði áfram sem þjóð verði Íslendingar að nýta gögn og gæði landsins, allar þær auðlindir sem landið býr yfir til sjávar og sveita. Forsenda þess er sú að landið haldist í byggð.