135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:39]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágæta ræðu um fjárlagafrumvarpið og skemmtilega flutta. Hann hefur farið yfir alla helstu málaflokka og gert grein fyrir ýmsum hugmyndum framsóknarmanna. Ekki ætla ég að vera með nokkur hnjóðsyrði í garð Framsóknarflokksins. Ég hef ekki lagt það í vana minn til þessa og fer ekki að taka það upp núna allra síst þegar við erum að einhverju leyti komin í sama lið hér á þingi.

En skildi ég þingmanninn rétt, tók ég rétt eftir þegar hann gagnrýndi Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir að vera óábyrga í tillöguflutningi sínum varðandi breytingartillögu fjárlagafrumvarpsins? Ef svo er, ef ég hef skilið það rétt, verð ég að svara því til að ég kannast ekki við það. Ágætlega var farið yfir það fyrr í þessari umræðu af formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvernig við höfum hugsað breytingartillögur okkar og hvernig við höfum hugsað annars vegar útgjaldahliðina og hins vegar tekjuhliðina þannig að það stæðist nokkurn veginn á.

Við erum sannfærð um að tillögur okkar eru afskaplega ábyrgar að þessu leyti til. Við gerum grein fyrir því hvernig við hyggjumst fjármagna þau viðbótarútgjöld sem við gerum tillögur um. Ég vil gjarnan fá að heyra það betur frá hv. þingmanni hvort hann sé virkilega þeirrar skoðunar að framsetningin á breytingartillögum okkar sé að þessu leyti óábyrg.