135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar litið er til framhaldsskóla almennt verður í raun og veru raunlækkun á milli áranna 2006 og 2007 sé farið að tillögu meiri hlutans í þessum efnum. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segjum að það sé ótækt og það verði að fara að sýna í verki þann vilja manna sem þeir hafa í orði kveðnu lýst á Alþingi Íslendinga, að ætlunin sé að bæta framhaldsskólakerfið og bæta framhaldsskólanum upp þau mögru ár sem hann hefur farið í gegnum upp á síðkastið. Það er ekki gerð tillaga til þess af meiri hlutanum. Breytingartillagan frá okkur hljóðar hins vegar upp á 300 millj. kr. aukalega í rekstur framhaldsskólanna og skyldan rekstur. Ég hvet hv. þingmenn til að fylgja eftir hugsunum sínum og sjónarmiðum varðandi öflugt framhaldsskólastig og greiða þessari tillögu atkvæði. Ég segi já.