135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:53]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ferðaþjónustan er atvinnugrein í sífelldum og örum vexti. Það er mikilvægt að hlúa að henni, ekki hvað síst er varðar úrbætur og aðbúnað á fjölsóttum ferðamannastöðum og í markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu. Flutningsmenn þessarar tillögu leggja til að framlög verði aukin til upplýsingamiðstöðva undir liðnum Ferðamálasamtök landshluta og til úrbóta í umhverfismálum á fjölsóttum ferðamannastöðum í nánu samstarfi við Ferðamálastofu og Umhverfisstofnun. Loks er lagt til aukið framlag til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu en framlög til þessa máls eru aðeins 70 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar undir tveimur viðfangsefnum og hefur það lækkað úr 300 millj. kr. á þremur árum. Það er mjög bagaleg þróun og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og því er þýðingarmikið að auka framlag til þessa starfs. Ég segi já.