135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

úthýsing verkefna á vegum ríkisins.

198. mál
[18:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér leikur hugur á að vita hvort í vændum sé eða hvort þegar sé orðin einhver stefnubreyting á vegum hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar úthýsingu verkefna á vegum ríkisins. Það hefur verið eitt helsta boðorð frjálshyggjunnar að koma sem allra mestu af verkefnum frá ríkinu til einkaaðila. Það hefur verið gert með ýmsum hætti svo sem með því að hlutafélagavæða og einkavæða og selja ríkisfyrirtæki í heilu lagi og færa til áherslur með þeim hætti. Síðan hefur einnig verið unnið að því í anda hugmyndafræðinnar að úthýsa einstökum þáttum í starfsemi hins opinbera, að setja þrýsting á opinberar stofnanir og fyrirtæki að láta verkefni ganga út til einkaaðila á vegum samninga eða með ýmsum slíkum aðferðum. Einu nafni gengur það undir orðinu úthýsing eða útvistun.

Útvistunarstefna ríkisins var svo mótuð og gefin út í fallegum bæklingi, a.m.k. hvað útlitið snertir, en bæklingurinn var prentaður árið 2006. Þar var ætlunin að fyrir síðustu áramót yrði almennt komin stefna í öllum ráðuneytum um hvernig slík úthýsing færi fram. Það voru sem sagt pólitísk fyrirmæli í raun og veru, mótuð af ríkisstjórn, sem áttu að ganga niður til allra ráðuneyta um að þannig skyldi staðið að málum. Að því er virtist var í raun og veru ekki mikill greinarmunur á því hvaða starfsemi átti í hlut hverju sinni og var það kynnt með miklum tilþrifum og blásið í herlúðra af fyrri ríkisstjórn.

Eitthvað mun það nú hafa tafist og framkvæmdin hefur ekki gengið jafnhratt og menn ætluðust til en — nú held ég að tíminn hafi eitthvað brenglast hjá mér, ég get ekki verið búinn með þrjár mínútur, frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Það eru tvær mínútur.)

Jæja. Hef ég tvær mínútur til að mæla fyrir fyrirspurn? Síðan hvenær? Ég held að eitthvað hafi farið hér úr skorðum en ég skal ekki fjölyrða lengur um það. Efni fyrirspurnarinnar er sem sagt að inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvort orðið hafi stefnubreyting með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar og ætlunin sé að endurskoða áformin eitthvað? Sér þess stað (Forseti hringir.) með einhverju hætti í þessum efnum að Samfylkingin er komin til valda eða er óbreytt stefna fyrri ríkisstjórnar um úthýsingu verkefna á vegum ríkisins enn við lýði?