135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

úthýsing verkefna á vegum ríkisins.

198. mál
[18:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég hef greinilega misskilið fyrri ræðu hv. fyrirspyrjanda því að hann var ekki að spyrja vegna sérstaks áhuga á málefninu heldur beinlínis í andstöðu við hin nútímalegri viðhorf í rekstri og hin nútímalegri viðhorf í ríkisrekstri. Útvistunarstefnan snýst ekki beinlínis um einkavæðingu eins og hún er almennt notuð heldur gengur hún aðallega út á hagræðingu og reynt er að leita að hagkvæmustu kostunum til úrlausnar á verkefnum sem ríkið glímir við. Ég er næstum því viss um að hið opinbera hefur frá því að Stjórnarráðið fluttist til Íslands, og jafnvel frá því löngu fyrir þann tíma, leigt húsnæði á Íslandi, ekki hefur allt húsnæði verið í eigu hins opinbera. Það er einfaldlega skynsemi í því og fer eftir aðstæðum hvort ráðlegt er fyrir ríkið að eiga húsnæðið eða leigja. Eftir því sem húsnæði verður sérhæfðara og eftir því sem kröfurnar og breytingarnar eru meiri og hraðari held ég að augljóst sé að skynsamlegra sé að leigja húsnæði.

Ég held að engan veginn sé hægt að draga þær ályktanir af málflutningi Samfylkingarinnar á síðustu árum að hún bregðist með einhverjum hætti með því að vera sammála stefnunni sem hefur verið í gangi hvað þetta varðar. Þvert á móti tel ég að hún hafi frekar verið hlynnt nútímalegum rekstri hjá ríkinu, að ríkið tileinkaði sér þá möguleika í rekstri sem eru á þeim tímum sem við lifum.