135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfshópur ráðherra um loftslagsmál.

199. mál
[19:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra segir hér — það er ágætt að það er þá staðfest miðað við það hvernig mál standa — að hún sé ekki fylgjandi íslenska ákvæðinu. Hún er þá algjörlega ósammála hæstv. forsætisráðherra sem er fylgjandi því ákvæði. Þá sér maður ekki ástæðu til að vera mikið að eltast við það en samt þarf nú þessi ráðherrahópur að komast að niðurstöðu. Í þeim ráðherrahópi eru tveir frá Samfylkingunni og tveir frá Sjálfstæðisflokknum, það eru hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hæstv. fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, og hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson. Þessir fjórir ráðherrar verða að pína sig í gegnum þetta með íslenska ákvæðið og annar flokkurinn segir nei við því en hinn segir já. Ég spyr: Hvenær fáum við að vita niðurstöðuna?

Ég tel að Samfylkingin hafi verið á villigötum með íslenska ákvæðið í upphafi og sé það enn, tengdi íslenska ákvæðið einhvern veginn við almenna náttúruvernd í landinu, ekki mætti sökkva landi og eitthvað slíkt. En það er þannig að íslenska ákvæðið er gott fyrir lofthjúpinn og Kyoto-samkomulagið er um lofthjúpinn en ekki um land sem fer undir vatn eða ekki. Samfylkingin hefur verið á algjörum villigötum í þessu og Vinstri grænir reyndar líka.

Ég ætla að nýta tækifærið hér í lokin af því að hæstv. umhverfisráðherra kemur upp öðru sinni og spyrja: Getur hæstv. umhverfisráðherra ekki viðurkennt — eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði á Norðurlandaráðsþingi fyrir stuttu, sem var mjög gott — að íslenska ákvæðið er gott fyrir lofthjúpinn? Já eða nei. Er betra að framleiða ál á Íslandi með endurnýjanlegum orkugjöfum eða er betra að framleiða ál með kolum og olíu? Já eða nei.