135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta kemur úr hörðustu átt því að sá sem hér stendur hefur einmitt flutt frumvarp á Alþingi undanfarin ár sem lýtur að því sem hv. þingmaður talar um. Þess vegna hef ég með staðfestum hætti, með lagafrumvarpi, lýst því á þinginu.

Ég tek alveg heils hugar þátt í að það verði endurskoðað, eins og hv. þingmaður talar um og hefur lýst yfir, og vil láta verkin tala í þeim efnum. Ég get fullvissað hv. þingmann um það og bið hann að lesa frumvarp sem ég hef flutt á undanförnum árum sem lýtur að því máli. Það gæti verið fróðlegt og flýtt vinnunni.

Varðandi færslu á upphæðunum sem vísað var til ríkisendurskoðanda þá er ríkisendurskoðandi ráðgjafi nefndarinnar en nefndin tekur sjálfstæða ákvörðun. Við höfum ekkert annað en munnlega yfirlýsingu ríkisendurskoðanda þar sem hann telur að gera verði hlutina með þessum hætti, án þess að ég vitni orðrétt í ríkisendurskoðanda.

Ég hef krafist þess, og get lesið upp úr bók um það, að fjárlaganefnd fái öll umrædd gögn sjálf og leggi sjálfstætt mat á bakgrunn og gildi og stöðu talnanna. Það tel ég vera skyldu fjárlaganefndar og að hún fái gögnin sjálf í hendur til að leggja mat á þau þótt hún ætli ekki að gera lítið úr orðum ríkisendurskoðanda (Forseti hringir.) í þeim efnum. Það lýtur ekki að fjárlaganefnd.