135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:14]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Um hvað snýst þessi umræða? Um hvað snýst vandi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu? Hann snýst um uppsafnaðan halla fyrri ára, ára þegar Framsóknarflokkurinn réð yfir heilbrigðismálum í landinu. Hvað hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gert eftir að hún tók við völdum. Það er verið að verja 500 millj. kr. aukalega til heilsugæslunnar. Það er verið að verja 300 millj. kr. í heimahjúkrun. Það er verið að þrefalda fjármagnið í heimahjúkrun á þremur árum. Það er verið að verja 35 millj. kr. í að ráða klíníska sálfræðinga innan heilsugæslunnar og 18 millj. kr. í að efla geðheilbrigðisþjónustu barna.

Ríkisstjórnin sýnir í verki að hún er að styrkja heilsugæsluna. Heilsugæslan er gríðarlega mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfi okkar og við erum að styrkja hana. Við tókum við búi frá Framsóknarflokknum sem er þess eðlis að það tekur tíma að vinna upp hallann. Uppsafnaður halli blasir við. Hann er frá tíð Framsóknarflokksins. Athugasemdir hv. fyrirspyrjanda eiga því ekki heima í þessum sal heldur á þingflokksfundi Framsóknarflokksins.