135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:33]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég beindi orðum mínum ekki að hv. þingmanni því að ég var að gera athugasemd eða skilgreina hlutina áðan vegna þess að fyrr í umræðunni hefur borið á því að fólk „óttist“ að verið sé að stíga skref til einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni. Ég lít ekki svo á. Kerfið reynir að nýta sér þá þjónustu og þekkingu sem til staðar er í þjóðfélaginu og á áreiðanlega eftir að koma heilbrigðismálum til góða ef við stígum skrefin rétt og skynsamlega inn í framtíðina.

Ég minni á að fyrr í dag fóru fram umræður að því er varðar heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og talað var um mikinn kostnað sem væri henni samfara, að 500 millj. kr. vantaði upp á að heilsugæslan gæti verið rekin með sómasamlegum hætti. Það er glöggt dæmi um að við höfum ekki nægilega yfirsýn yfir þarfirnar og kostnaðinn sem lúta að starfsemi eins og heilsugæslunni. Ég held þess vegna að til bóta sé ef menn geta skilgreint kostnaðinn, greint hann og áttað sig á hve mikið fé þarf raunverulega til þjónustunnar án þess að rifist sé um það á Alþingi, án þess að fjárveitingavaldið takist á við þjónustuaðila. Ég tel því að það spor sem nú er verið að stíga um að sameina samninga, kaup og sölu í stofnun af þessu tagi sem á að vera rekin á vegum heilbrigðisráðuneytisins sé afar skynsamlegt og nauðsynleg tilraun til að ná utan um þá miklu fjármuni sem eru til staðar.