135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[21:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert þingheimi grein fyrir hvað frumvarpið felur í sér. Það kemur betur og betur í ljós að umhverfisvernd borgar sig og markaðurinn sem orðið hefur til í kringum umhverfisvernd, og ég tali nú ekki um svokallaða endurnýjanlega orkugjafa, er orðinn umtalsverður. Það er farið að velta umtalsverðum fjármunum og eðlilegt að við Íslendingar verðum hluti af þeim markaði og verðum okkur meðvituð um að umhverfisverndin, hreint umhverfi og virðing fyrir umhverfinu geta verið mikilvæg söluvara.

Ég held því ekki fram að ég beri fullt skynbragð á það sem frumvarpið fjallar um. Sala upprunavottorða af þessu tagi er nýstárleg og ég geri mér ekki alveg grein fyrir því sem orkufyrirtækin sjá í þessum efnum. Mér finnst það afar fróðlegt mál og tel það eðlilegt að við Íslendingar tökum það til rækilegrar skoðunar.

Eftir að hafa lesið frumvarpið staldra ég við skilgreininguna á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar kem ég að afar viðkvæmu máli, viðkvæmu fyrir okkur Íslendinga, sérstaklega þegar við leggjum nú út í gríðarlega umfangsmiklar jarðvarmavirkjanir. Það er sannarlega umdeilanlegt hvort jarðvarmavirkjanir, þar sem einungis er virkjað fyrir raforkuframleiðslu, geti talist vera sjálfbærar virkjanir og þar af leiðandi hvort þær geti í alvöru flokkast undir endurnýjanlega orkugjafa.

Ég velti því upp og styð þær þeim rökum sem t.d. koma fram í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins á orkumálum. Þar er verið að fjalla um væntanlegar virkjanir á Hellisheiðarsvæðinu, Bitru- og Hverahlíðarvirkjun. Í umhverfismatsskýrslum virkjananna er lýst vinnubrögðum við raforkuframleiðsluna sem teljast vera ágeng vinnubrögð eða ágeng nýting. Í greininni eða úttekt Viðskiptablaðsins er dregið í efa að vinnsla af því tagi geti talist vera sjálfbær.

Nú sækir greinin, þ.e. úttekt Viðskiptablaðsins, ekki hvað síst í sérfræðinga sem vitnað er til í þingmáli sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á þessu þingi í þingskjali 13. Þar erum við þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem flytjum málið, hv. þingmaður Álfheiður Ingadóttir og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson auk mín. Í þingsályktunartillögunni fjöllum við um rannsóknir og sjálfbæra nýtingu jarðhitasvæða og teljum að fullt tilefni sé til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fengið yrði það verkefni að leita leiða til að tryggja að umhverfisáhrifum af framkvæmdum á jarðhitasvæðum verði haldið í algjöru lágmarki. Sömuleiðis gerum við ráð fyrir að tekið verði mið af Ríó-yfirlýsingunni af meginreglum umhverfisréttar og öðrum skuldbindandi samningum sem Ísland á aðild að með það að markmiði að nýting jarðvarmans uppfylli skilyrði sjálfbærrar þróunar.

Ástæðan fyrir því að við efumst um að þær jarðvarmavirkjanir sem í bígerð eru, þar sem eingöngu á að framleiða raforku, séu sjálfbærar og geti talist vera endurnýjanleg orka á þeim nótum sem frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra talaði fyrir áðan segir til um, eru greinar sem við látum fylgja sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu okkar.

Í öðru lagi er um að ræða grein eftir Sveinbjörn Björnsson, okkar helsta sérfræðing í virkjun jarðvarma. Sú grein er byggð á erindi sem Sveinbjörn flutti á orkuþingi 2006 og heitir Orkugeta jarðhita en þar fjallar Sveinbjörn um með hvaða hætti vinnsla jarðhita valdi lækkun á þrýstingi í jarðhitakerfum sem leiði til aukins aðstreymis frá nánasta umhverfi. Hann segir að streymið flytji varma til kerfanna en samt feli vinnslan yfirleitt í sér hraðara varmanám en náttúruleg endurnýjun og aukið aðstreymi gefa. Sveinbjörn segir að geti vinnslan því ekki talist sjálfbær nema hlé séu gerð á henni til að leyfa jarðhitakerfinu að jafna sig eftir varmanámið.

Hann heldur því einnig fram í greininni að huga þurfi að endurheimt fyrri landgæða þegar hlé er gert á vinnslu eða henni hætt og umhverfisáhrif jarðhitavinnslu virðist að jafnaði minni en í stærri virkjunum vatnsafls þar sem þörf er á stórum miðlunarlónum en hins vegar séu háhitasvæði afar sérstæð að náttúrufari og röskun þeirra með mannvirkjum geti spillt gildi þeirra fyrir útivistarferðamennsku.

Þegar farið er að spilla náttúruverndargildi jarðvarmasvæða erum við komin út á hið gráa svæði og spurningin um hvort hægt sé að telja orkunýtinguna eða orkuvinnsluna sjálfbæra eða ekki, er orðin afar þung á metunum.

Önnur grein sem fylgir sama þingmáli og ég nefndi úr þingskjali 13, byggir á erindi sem flutt er á sama orkuþingi, árið 2006. Sú grein er eftir Guðna Axelsson, Sveinbjörn Björnsson og Valgarð Stefánsson og fjallar um hvernig meta eigi sjálfbæra vinnslugetu jarðhitasvæða.

Báðar greinarnar velta upp afar krítískum spurningum varðandi möguleikana á sjálfbærri nýtingu á jarðhitasvæðum og komast í raun og veru að því að hætta sé á að orkuframleiðendur geri nákvæmlega það sem Viðskiptablaðið segir í fyrirsögn í sinni grein, fleyti rjómann af auðlindinni.

Ég tel því að samkvæmt skilgreiningum á hinni sjálfbæru orku eða endurnýjanlegum orkugjöfum, sem koma fram í 2. gr. frumvarps hæstv. iðnaðarráðherra þar sem taldar eru upp vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi, geti þær ekki í öllum tilfellum flokkast sem endurnýjanlegir orkugjafar.

Ég hefði því haldið að hér væru ákveðnar efasemdir sem skoða þyrfti afar vel við umfjöllun frumvarpsins. Ég geri mér grein fyrir að Evrópusambandið skilgreinir jarðvarmaorkuna og vatnsorkuna að ákveðnu marki sem endurnýjanlega auðlind án þess að hafa farið í gegnum hina krítísku umræðu sem við, sem erum svona háð þessari endurnýjanlegu orkugjöfum og þekkjum svo vel, gætum í sjálfu sér uppfrætt ráðamenn Evrópusambandsins um.

Hér er að mínu mati ekki allt sem sýnist og ég held að okkur beri skylda til að umgangast hugtökin af þekkingu og að við göngumst ekki undir einhverjar skilgreiningar sem Evrópusambandið hefur gert, kannski ekki vankunnáttu en ef til vill af ákveðinni óskhyggju, í von um að jarðvarmaorka og vatnsorka sem unnin er úr vatnsföllum séu svo mikið umhverfisvænni en orka unnin úr jarðefnaeldsneyti — þá teygi menn svolítið skilninginn og skilgreiningarnar á hugtökunum.

Ég held að við Íslendingar eigum að standa í ístaðinu hvað þetta varðar og ekki að hlaupa eftir svo grunnum og jafnvel grunnhyggnum skilgreiningum Evrópusambandsins heldur átta okkur á að það sem flokkast getur sjálfbært þarf að vera út í gegn og við verðum að fara að ráðum okkar færustu sérfræðinga í þeim efnum.

Þetta vildi ég segja í 1. umr., hæstv. forseti, sem ég hefði talið að ætti að vera umfangsmeiri, efnismeiri og að fleiri ættu að taka þátt í. Þetta er mál sem gefur tilefni til frekari umræðu við 1. umr. Ég geri þó ráð fyrir og treysti því að málið verði skoðað vel í iðnaðarnefnd og kann vel að vera að umhverfisnefnd Alþingis þurfi að kíkja á það yfir öxlina á iðnaðarnefnd. Ég tel vera hér á ferð skilgreiningar sem umhverfisnefnd ætti að skoða betur.