135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[11:30]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á þessu máli og þakka fyrir þá samstöðu sem myndaðist í félags- og tryggingamálanefnd um þetta mál. Þetta er mikið réttlætismál fyrir þá foreldra sem eiga langveik börn eða fötluð börn. Ákvæði sem var í eldri lögum númer 22 frá 2006 hafði ekki skilað tilætluðum árangri þar sem margir féllu utan við þær skilgreiningar sem voru í lögunum.

En hér hefur verið bætt úr og komið til móts við þá hópa óháð því hvenær fötlun eða veikindi hafa skapast og eingöngu miðað við það hver þörfin sé á hverjum tíma, hvort fólk þurfi á aðstoð að halda eður ei.

Jafnframt er í þessu frumvarpi gefið fyrirheit um að ýmsir þættir verði skoðaðir í framhaldi af félagsmálaráðuneytinu og þannig komið til móts við hópa sem ekki hafa fallið undir lögin hingað til eins og ADHD-samtökin og Tourette-samtökin, þ.e. börn sem hafa þessi einkenni.

Ég ætlaði bara rétt að fagna því að þetta hefur komið hér til atkvæðagreiðslu og fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur um málið.