135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:43]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni málefnalega rökræðu að venju. Ég tek alveg undir það, og skal svara því strax, tek heils hugar undir það að þessi mál á að gera upp en lýsi því jafnframt yfir að ég er ekki tilbúinn til að gera það með þeim hætti sem vinstri grænir leggja til hér og nú. Eins og kom áðan fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, eru tillögur þær sem hér liggja fyrir upp á hátt í 14 milljarða kr. og afgreiddar með einni tillögu um hækkun tekna eða skatta upp á svipaða upphæð ef ég man rétt. Og þetta er bara einn hluti af þeim pakka sem þar út af stendur.

Ég hef lýst því yfir í viðræðum við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra á fundi fyrir tveimur dögum, ef ég man rétt, að vilji minn stæði til þess að við settumst yfir þessi mál og gerðum þau upp á nýju ári. Ég dreg ekkert undan með það að til þess stendur vilji minn sem ég upplýsti á þeim fundi og ég ætla að miðað við þær viðtökur sem ég hlaut við þeirri uppástungu verði það gert og með fullum vilja til að reyna að koma þessum ágreiningsmálum, ef við getum sagt sem svo, út af borði.

Ég vil benda á það líka að utan þessara mála sem þarna út af standa er einnig verið að setja þó nokkuð háar fjárhæðir inn í verkaskipti ríkis og sveitarfélaga, eða ekki verkaskipti heldur uppgjörsmál, ef við getum kallað sem svo, sem ekki hafa verið beinlínis ásett í lögum. Nægir þar að nefna gríðarlegar fjárhæðir sem hafa verið settar inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á síðustu tveimur árum. (Forseti hringir.)