135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni kærlega fyrir innlegg hans í umræðuna um fjárlögin fyrir næsta ár. Hv. þingmaður þekkir þetta mjög vel sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, hann er mikill þekkingarbrunnur. Hann rifjar upp umrædda heimildargrein sem er eina breytingartillagan frá Framsóknarflokknum einum sér við fjárlögin, hvernig hún kom hér inn í fjárlögin á sínum tíma. Eftir umræðuna í dag stendur að formaður Framsóknarflokksins lýsti yfir vantrausti gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Síðan kemur hv. þm. Birkir Jón Jónsson og lýsir vantrausti gagnvart hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Framsóknarflokknum fannst það allt í lagi að umrædd heimildargrein væri þarna inni í nokkur ár út af því að Framsóknarflokkurinn var í heilbrigðisráðuneytinu. Á sama hátt þótti Framsóknarflokknum það engu skipta hver væri í fjármálaráðuneytinu því að Framsóknarflokkurinn væri svo gríðarlega sterkur í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn að hann mundi ráða þar öllu, eins og menn jafnvel muna úr ríkisstjórnarsamstarfinu. Þess vegna komu þessar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins verulega á óvart. Upp í hugann komu orðin frægu: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það rétt að einu tillögur Framsóknarflokksins hvað varðar þensluna séu þær að draga úr aðgerðum til að bæta kjör aldraðra og draga úr samgöngubótum á landsbyggðinni, eins og kom (Forseti hringir.) fram í ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar fyrr í dag?