135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil nú fullvissa hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um að það ríkir mjög góð samstaða innan hinnar eiginlegu stjórnarandstöðu. Þar er enginn ágreiningur. Það ríkir eindrægni og samstaða í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. (Gripið fram í.)

Við hv. þm. Jón Magnússon vil ég segja að sem betur fer er það ekki þannig að hv. þingmaður, þótt hann kannski haldi það sjálfur, hafi prókúru á skynseminni. Hún er ekki frátekin bara fyrir hv. þm. Jón Magnússon þó að hann kunni að halda svo. Ég efast um að það sé heppilegt veganesti fyrir menn í umræðum við annað fólk að tala eins og hv. þingmaður gerði.

Hitt má viðurkenna að hv. þingmaður er gamansamur þegar hann kallar það lítilsháttar breytingu á þingsköpum að hverfa frá ótakmörkuðum ræðutíma bæði í 2. og 3. umr. um frumvörp, eins og þetta hefur verið, og niður í fimm, fimmtán, tuttugu mínútur eða hvað það nú er.

Ég vil svo segja að langhörmulegast finnst mér hlutskipti forseta í þessu máli. Það hlýtur að vera dapurlegt fyrir forseta þingsins, Sturlu Böðvarsson, að standa frammi fyrir því að honum hafi þegar á fyrstu mánuðum í embætti sínu algerlega mistekist eitt mikilvægasta hlutverk sitt sem er að laða fram samstöðu og góðan samstarfsanda hér í þinginu. Það er ömurlegt hlutskipti fyrir einn nýlega kjörinn forseta að standa frammi fyrir því.

Herra forseti. Það var spurt að því eða minnt á það að ósk hefði komið fram um að þessi umræða færi ekki fram fyrr en minni hlutinn hefði haft eðlilegan tíma til að ganga frá nefndarálitum og breytingartillögum. Málið var afgreitt út úr nefnd í gærkvöldi og meiri hlutinn náði með naumindum að dreifa tillögum sínum fyrir miðnætti þannig að ekki þyrfti að taka málið fyrir með afbrigðum. Mér finnst eðlilegt að virðulegur forseti svari (Forseti hringir.) hvenær hann hafi hugsað sér að umræðan hefjist miðað við það hvernig hann setur upp dagskrá hér.