135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:01]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Samkvæmt upplýsingum frá varasjóði húsnæðismála liggur nú fyrir að ýmis sveitarfélög áforma sölu félagslegra íbúða á næsta ári og lítið mun draga úr umsóknum um rekstrarframlög. Fyrst og fremst er um að ræða sveitarfélög sem jafnframt standa frammi fyrir fjárhagslegum vanda af öðrum orsökum, svo sem vegna íbúafækkunar og erfiðleika í atvinnulífi. Jafnframt má búast við að samdráttur aflaheimilda í þorski muni enn auka vanda flestra umræddra sveitarfélaga. Við viljum við þessa afgreiðslu láta á það reyna hvort Alþingi sé reiðubúið til að koma til móts við þessar mikilvægu þarfir sveitarfélaganna sem hvað verst standa með því að auka framlagið til varasjóðs húsnæðismála um 225 millj. kr.