135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða breytingartillaga sem þingmenn Vinstri grænna ásamt þingmönnum Frjálslynda flokksins standa að og lýtur að því að bæta verulegum fjármunum inn í lífeyristryggingar, tæpum 5 milljörðum kr. í stað þeirra 954 millj. sem tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér og eru á næstu breytingartillögu. Þessi áhersla okkar er í samræmi við sameiginlega stefnumótun fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka frá haustinu 2006 og mundi nokkurn veginn bæta þeim fjárhæðum inn í lífeyristryggingakerfið og til aldraðra og öryrkja sem þar var mótuð stefna um. Það gerir tillaga ríkisstjórnarinnar hins vegar engan veginn, hún nær allt of skammt í þeim efnum þótt hún sé vissulega í rétta átt og er þessi munur á eins og menn sjá skýrt ef þeir bera saman niðurstöðutölurnar, 4.980 millj. annars vegar og 954 millj. frá ríkisstjórninni hins vegar.