135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:25]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Vissulega hefði verið full ástæða til að bæta 400 millj. við í þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til heilsugæslunnar í Reykjavík en þar sem við framsóknarmenn komum ekki að þessari fjárlagagerð og berum ekki ábyrgð á henni finnst okkur ómálefnalegt að taka út úr einn og einn lið og styðja hann vegna þess að heilt yfir eru þessi fjárlög mjög þensluskapandi og við viljum ekki taka þátt í því.

Að sjálfsögðu hefðum við komið hlutum þannig fyrir ef við hefðum haft tök á að heilsugæslan í Reykjavík yrði starfhæf á næsta ári, sem hún verður ekki, með þeim framlögum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita henni. Þetta er liður í því að breyta heilbrigðismálum á Íslandi, einn liður í því, enda sagði forsætisráðherra í haust að farið yrði út í breytingar á heilbrigðiskerfi (Forseti hringir.) sem ekki hefðu verið mögulegar með Framsóknarflokknum. Þetta er dæmi um það. Ég greiði ekki atkvæði.